Handbolti

Vignir Svavarsson semur við Lemgo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vignir í æfingaleik með Skjern gegn Haukum sumarið 2006.
Vignir í æfingaleik með Skjern gegn Haukum sumarið 2006. Mynd/Stefán

Handboltamaðurinn Vignir Svavarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við þýska úrvalsdeildarliðið Lemgo.

Hann mun væntanlega gangast undir læknisskoðun í næsta mánuði og eftir það mun samningurinn taka gildi. Hann gengur formlega til liðs við Lemgo eftir að tímabilinu í Danmörku er lokið í vor.

„Ég hef enga ástæðu til að hafa áhyggjur af læknisskoðuninni enda hef ég aðeins misst af einum leik vegna meiðsla á öllum ferlinum," sagði Vignir í samtali við Vísi.

„Að öðru leyti er þetta frágengið og er ég mjög ánægður með samninginn. Það er líka gott að vera búinn að ganga frá þessum málum því nú get ég einbeitt mér að tímabilinu með Skjern."

Logi Geirsson er á mála hjá Lemgo og Ásgeir Örn Hallgrímsson fór frá Lemgo í sumar til GOG Svendborg í Danmörku í sumar. „Þeir gáfu báðir félaginu sín bestu meðmæli enda er þetta toppklúbbur. Mér líst mjög vel á þau áform sem eru uppi hjá félaginu. Það ætlar sér stóra hluti og vilja fá mig í það verkefni með sér. Ég vona að mitt besta sé nógu gott."

Hann segir að það sé samkeppni um allar stöður í toppliðunum í Evrópu og hann er ekki feiminn við að láta reyna á sig í bestu deild í heimi. „Ég vil sjá hvar ég stend og næsta skref fyrir mig var að athuga hvernig maður spjarar sig í Þýskalandi. En ég hef það voðalega gott í Danmörku og allt í kringum Skjern er eins og best verður á kosið," sagði Vignir sem hefur leikið með Skjern í tvö og hálft ár.

Vignir fékk sér umboðsmann í ágúst síðastliðnum og hafa þeir síðan þá verið að vinna í því að finna honum nýtt félag. „Lemgo hefur verið upp á borðinu undanfarinn mánuð og var ekki erfitt að ákveða að semja við þá. Það var þó erfitt að taka þá ákvörðun að fara frá Danmörku."

Hann segist vera í engum vafa um að danska úrvalsdeildin sé sú þriðja sterkasta í Evrópu, á eftir þýsku og spænsku deildinni. Hún hafi einnig aldrei verið eins sterk.

„Það eru fáir leikmenn sem fara frá Danmörku og mörg stór nöfn hafa verið að koma til liða í deildinni. Hér eru mörg lið jöfn að styrkleika og geta allir unnið alla í toppbaráttunni."

Skjern er í áttunda sæti deildarinnar með þrettán stig eftir ellefu umferðir en aðeins tveimur stiugm á eftir GOG sem er í þriðja sæti. FCK er á toppnum með sautján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×