Handbolti

Mikilvægur sigur Gummersbach

Alfreð Gíslason hafði tilefni til að fagna í gær.
Alfreð Gíslason hafði tilefni til að fagna í gær. Nordic Photos / Bongarts

Róbert Gunnarsson skoraði átta mörk í tveggja marka sigri, 34-32, Gummersbach á Nordhorn í gær.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur þar sem Gummersbach á í harðri baráttu við Nordhorn og önnur lið um sæti í Evrópukeppninni að ári.

Hefði Gummersbach tapað hefði það verið fimmta tap ársins hjá Gummersbach í ellefu leikjum.

Róbert Gunnarsson átti stórleik fyrir Gummersbach í gær og var markahæstur sinna manna með átta mörk ásamt Króatanum Vedran Zrnic.

Sverre Andreas Jakobsson lék að venju í vörn liðsins og fékk tvívegis tveggja mínútna brottvísun.

Gummersbach lét aldrei forystuna af hendi og náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 10-5. Staðan í hálfleik var 14-13, Gummersbach í vil. Þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka náði Nordhorn að minnka muninn í eitt mark, en Roman Puntgartnik náði að skora síðasta mark leiksins, átján sekúndum fyrir leikslok.

Nordhorn er í fjórða sæti deildarinnar með fimmtán stig eftir tíu leiki en Gummersbach í því fimmta með þrettán stig eftir ellefu leiki.

Annað topplið, HSV Hamburg, vann nauman eins marks útisigur, 28-27, á Balingen sem er í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Kiel hélt efsta sæti deildarinnar í gær með sigri á nýliðum Essen á útivelli, 33-27. Halldór Jóhann Sigfússon kom ekkert við sögu frekar en fyrri daginn hjá Essen.

Liðið í öðru sæti, Flensburg, vann átta marka sigur á Füchse Berlin, 29-21. Kiel er með átján stig eftir tíu leiki en Flensburg sautján eftir níu leiki.

Hvorki Alexander Petersson né Einar Hólmgeirsson komu við sögu hjá Flensburg í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×