Erlent

Viðbjóðslegar myndir bjarga lífi

Ein myndanna sem mun prýða tóbaksvörur í Bretlandi.
Ein myndanna sem mun prýða tóbaksvörur í Bretlandi.

Svört lungu, æxli og lík reykingamanna eru meðal þess sem mun blasa við breskum reykingamönnum í lok ársins 2009. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi kynntu í dag ný lög um merkingar á tóbaksumbúðum. Í stað skrifaðra viðvarana verða nú settar myndir af öllum þeim hryllingi sem neysla tóbaks getur haft í för með sér.

Lögin taka gildi síðla árs 2009 ásamt því að þá verður lágmarksaldur til tóbakskaupa hækkaður í 18 ár - sama aldur og fyrir áfengiskaup í Bretlandi.

Robert West, vísindamaður hjá Krabbameinsfélaginu í Bretlandi, sagði í viðtali við BBC að á milli fimm og tíu þúsund reykingamenn gætu hætt á ári hverju vegna myndanna. Það myndi bjarga lífi 2500 til 5000 manns árlega. Hann sagði þó að áhrifamesta leiðin til að draga úr reykingum væri að hækka verð á tóbaki.

Baráttusamtök gegn reykingum fagna lögunum. Hagsmunasamtök reykingamanna eru ekki jafn sátt, en þau segja allt eins hægt að setja viðvaranir á áfengisflöskur eða ruslfæði.

Bretland verður fyrsta landið í Evrópu til að merkja allt tóbak með þessum hætti en álíka merkingar eru nú þegar á sígarettupökkum í Belgíu. Rúmenía og Finnland ráðgera svo að merkja sígarettupakka á næsta ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.