Innlent

Formleg leit hafin að þýsku ferðamönnunum

Formleg leit er nú hafin að tveimur þýskum ferðamönnum sem saknað hefur verið eftir að þeir skiluðu sér ekki til Þýskalands með flugi sem þeir áttu bókað þann 17. ágúst sl. Er leitað í Skaftafelli til að byrja með.

Í frétt frá Landsbjörgu segir m.a. að björgunarsveitir í Austur-Skaftafellssýslu séu nú að koma sér upp stjórnstöð í Skaftafelli þangað sem leitin mun beinast fyrst um sinn en vitað er að ferðamennirnir tóku á móti SMS skilaboðum í síma sinn á þeim slóðum þann 30. júlí. Einnig er vitað að mennirnir keyptu sérkort af Skaftafelli í verslun í Þýskalandi rétt fyrir för sína hingað til lands.

Björgunarsveitir hafa í dag leitað í Skaftafelli, m.a. að tjöldum utan alfaraleiðar og öðrum ummerkjum er gætu verið eftir mennina tvo.

Landsstjórn björgunarsveita vinnur nú, ásamt fulltrúum frá Landhelgisgæslunni og lögreglunni, að skipulagningu leitarflugs þar sem kanna á algengar gönguleiðir á svæðinu, klifurleiðir, sem og staði þar sem hættulegt er að ferðast um. Áætlað er að þyrla Landhelgisgæslunnar fari á staðinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×