Sport

Slúðrið á Englandi í dag

Julio Baptista
Julio Baptista NordicPhotos/GettyImages

Bresku helgarblöðin eru full af safaríku slúðri í dag og þar segir meðal annars að West Ham sé að reyna að kaupa Freddie Ljungberg frá Arsenal fyrir 3 milljónir punda. News of the World segir jafnframt að félögin tvö séu í baráttu um miðjumanninn Stephen Appiah hjá Fenerbahce.

News of the World segir ennfremur að Birmingham muni bjóða metfé, 10 milljónir punda, í framherjann Yakubu hjá Middlesbrough. People segir að Harry Redknapp hjá Portsmouth sé að fara að bjóða 4 milljónir punda í framherjann Jose Paulo Guerrero hjá Hamburg sem áður var hjá Bayern Munchen.

Sam Allardyce hjá Newcastle mun hafa áhuga á að kaupa norska miðvörðinn Brede Hangeland frá FC Kaupmannahöfn - Ýmsir. Þá er hann einnig að reyna að kaupa framherjann Julio Baptista frá Arsenal, en hann var á lánssamningi hjá enska félaginu frá Real Madrid á síðustu leiktíð. Werder Bremen í Þýskalandi hefur áhuga á Nicolas Anelka hjá Bolton - Sunday Mirror.

West Ham ætlar að bjóða í Lomana LuaLua frá Portsmouth, en hann mun einnig vera á höttunum eftir Kieron Dyer frá Newcastle - Sunday Mirror. Búlgarinn Martin Petrov hefur beðið Tottenham að kaupa sig - News of the World. Martin O´Neill er að reyna að fá markvörðinn Jussi Jaaskelainen frá Bolton og bakvörðinn Jose Bosingwa frá Porto - News of the World.

Sunderland og Birmingham eru að reyna að fá miðjumanninn Juan Sebastian Veron aftur í ensku úrvalsdeildina - People. Arsenal hefur sagt Bernie Ecclestone að hafa ekki fyrir því að reyna að gera yfirtökutilboð í félagið - Ýmsir.

Neil Warnock, fyrrum stjóri Sheffield United, hefur verið orðaður við hlutverk í breska þættinum "Komdu að Dansa" á BBC. "Ég á örugglega eftir að líta út eins og sauður, en ég er til í hvað sem er," sagði Warnock í samtali við People.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×