Fastir pennar

Humar eða fiskibollur úr dós

Ein meginátakalína stjórnmálanna hefur löngum hverfst um viðhorf fólks til skattheimtu. Þeir sem vilja lækka skatta liggja gjarnan undir ámæli um að vilja bæta hag hinna ríku en vera slétt sama um smælingja samfélagsins, og öfugt með hina sem eru fylgjandi háum sköttum.

Rökin gegn lækkun skatta eru í grófum dráttum annars vegar þau að hinir ríku hagnast í krónum talið mun meira á skattalækkunum en hinir efnaminni og hins vegar að lágir skattar draga úr tekjujöfnunaráhrifum skattkerfsins. Skattheimta á sem sagt að vera ein leið til að auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu.

Verkalýðshreyfingin, með ASÍ í fararbroddi, hefur lagt ríka áherslu á þetta sjónarmið. Nú bar hins vegar svo við að þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður um síðustu mánaðamót mótmælti enginn. Þvert á móti var skattalækkununum fagnað um allar grundir, þar á meðal af ASÍ í sérstakri ályktun.

Óréttlætið sem felst í þessari skattalækkun er þó augljóst því þeir sem geta leyft sér að hafa nautasteik og humar í matinn um hverja helgi græða auðvitað miklu meira en hinir sem þurfa að láta sér duga kjötfars og fiskibollur úr dós frá Ora. Vaskurinn af tíu þúsund króna máltíðinni lækkaði um um það bil 700 krónur en af tvö þúsund króna máltíðinni lækkaði hann bara um 140 krónur. Sá efnameiri fær sem sagt fimm sinnum meiri skattalækkun í sinn hlut.

Þetta nær ekki nokkurri átt. Eða hvað? Ef vaskurinn hefði verið óbreyttur hefði jú enginn grætt. Auðvitað er mergur málsins og hin ófrávíkjanlega staðreynd sú, að allir sem borga skatta græða þegar skattar eru lækkaðir. Krafan um skattalækkun ætti því að vera á oddinum hjá kjósendum í vor.

Og samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því um helgina eru kjósendur einmitt alláhugasamir um skattamál. Meðal annars áhugasamari en um umhverfismál, sem fáir hefðu væntanlega trúað að ókönnuðu máli. Hvernig flokkarnir bregðast við þessum áhuga verður spennandi að sjá. Efst á listanum, yfir þau mál sem Fréttablaðið spurði um, trónuðu þó velferðarmál.

Sem vekur aftur upp þá spurningu hvort fari saman í ríkisrekstri að lækka skatta og hlúa á sama tíma að velferðarmálunum? Svarið við því er að ef eitthvað er að marka reynslu okkar Íslendinga, sem og annarra þjóða, þá hleypa skattalækkanir auknum krafti í athafnalífið með tilheyrandi meiri tekjumyndun í samfélaginu í heild. Fyrir vikið breikka skattstofnarnir og ríkið fær auknar tekjur til að standa undir útgjöldum sínum.

Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn lofuðu í stjórnarsáttmála sínum fjögurra prósenta lækkun á tekjuskattshlutfallinu á kjörtímabilinu. Það loforð var því miður ekki efnt að fullu því niðurstaðan varð þriggja prósenta lækkun. Engin ástæða er þó til að láta þar staðar numið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×