Fjórtán þingmenn stóðu að frumvarpinu en fyrsti flutningsmaður var Guðlaugur Þór Þórðarson. Samkvæmt því skyldi einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verða afnumin á sölu áfengis með vínandastyrk 22 prósent eða minna.
Allsherjarnefnd Alþingis lagði til í fyrradag að frumvarpið yrði samþykkt en venjan er að mál sem ná svo langt verði að lögum. Vinstri grænir lögðust hins vegar gegn málinu og á fundi þingflokksformanna gaf Ögmundur Jónasson til kynna að það myndi kosta geysimikla umræðu ef menn reyndu að ná því í gegn. Málinu var því kippt út af dagskrá.