Handbolti

Frábær sigur hjá Valsmönnum

Mynd/Völundur

Valsmann unnu í kvöld fyrsta leik sinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði stórlið Celje Lasko frá Slóveníu 29-28 í Vodafone höllinni.

Valsmenn höfðu forystu í hálfleik 15-14 og voru skrefinu á undan allan síðari hálfleikinn, en lokamínúturnar voru gríðarlega spennandi þar sem Valsararnir náðu að hanga á eins marks forskoti þrátt fyrir að vera manni færri. Þar munaði mikið um markvörslu Pálmars Péturssonar, sem varði vítakast og skot utan af velli á síðustu mínútunni.

Valsmenn áttu frábæran leik í dag og var Óskar Bjarni þjálfari vitanlega í skýjunum eftir sigurinn þegar Þorsteinn Gunnarsson á Sýn náði tali af honum eftir leikinn.

"Þetta var lyginn líkast. Við vorum að vinna eitt sterkasta lið Evrópu. Við náðum að stöðva hjá þeim hraðaupphlaupin og strákarnir voru allir að spila vel í dag. Ég er svo stoltur af strákunum að ég á ekki orð og þetta er stór sigur fyrir íslenskan handbolta. Þetta er sætasti sigur minn á ferlinum og ég held að þetta sé stærsti sigur Vals síðan mulningsvélin var og hét," sagði Óskar, en til marks um styrk liðsins má geta þess að liðið varð Evrópumeistari leiktíðina 2003-04.



Valsmenn hlutu þarna sín fyrstu stig í F-riðlinum þar sem Gummersbach er á toppnum með 7 stig, Veszprém hefur 4 stig, Celje 3 og Valur 2.

Nánari umfjöllun um leikinn kemur hér á vefinn í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×