Handbolti

Einar Hólmgeirsson með rifinn lærvöðva

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Hólmgeirsson er hér með liðsfélaga sínum, Alexander Petersson.
Einar Hólmgeirsson er hér með liðsfélaga sínum, Alexander Petersson. Mynd/Vilhelm

Allt útlit er fyrir að Einar Hólmgeirsson hafi orðið fyrir enn einu áfallinu í kvöld.

Hann var borinn af leikvelli í leik Flensburg og Ciudad Real í kvöld og er talið að hann sé með rifinn lærvöðva. Hann var sárkvalinn en ekki er hægt að fá niðurstöðu í hversu alvarleg meiðslin eru fyrr en á morgun.

Að sögn Hólmgeirs Einarssonar, faðir Einars, er þetta enn eitt áfallið fyrir Einar. Hann missti af HM í Þýskalandi í byrjun árs sem og síðustu mánuðinum í þýsku úrvalsdeildinni síðastliðið tímabil.

„Ef hann heldur haus í gegnum þetta, þá er hann sterkur. Þetta er mjög sorglegt,“ sagði Hólmgeir. 

Einar er nýbúinn að ná sér góðum af meiðslum sínum og í kvöld var í raun fyrsti alvöru leikur hans í langan tíma.

Hann hefur fá tækifæri fengið hjá Kent-Harry Andersson, þjálfara Flensburg, þar til í kvöld.

Næsta stórmót í handbolta verður EM í Noregi í upphafi næsta árs. Fyrir nokkrum dögum gekkst Guðjón Valur Sigurðsson undir aðgerð vegna meiðsla og er óvíst með þátttöku hans á mótinu.

Þá hefur Snorri Steinn Guðjónsson einnig átt við meiðsli að stríða að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×