Fastir pennar

Blikkbeljan tamin

Fyrstu fríkortin í strætó voru afhent námsmönnum í gær. Má segja að þar með sé hafin alvöru tilraun til þess að draga Íslendinga út úr einkabílunum og koma þeim upp á lagið með að notfæra sér almenningssamgöngur.

Sjálfsagt er þó full hraustlegt að fullyrða að gjörvöll þjóðin sé þátttakandi í verkefninu; úr þessu verður tæplega hnikað við ást 25 ára og eldri á einkabílnum. Hún er örugglega orðin eilíf.

Ungir námsmenn eru hins vegar kjörinn jarðvegur fyrir tilraunina. Markmiðið hlýtur fyrst og fremst að vera að sá þeirri hugsun í höfuð unga fólksins að hver og einn þarf ekki endilega að eiga bíl til að komast á milli staða í höfuðborginni. Til mikils er að vinna ef sú hugmyndafræði nær að skjóta rótum.

Íslendingar eru bílaþjóð. Um 640 bílar eru á hverja þúsund íbúa, sem er með því hæsta í heiminum. Fullkomlega eðlilegt þykir að tveir bílar séu á hverju heimili, jafnvel þrír ef því er að skipta.

Það er augljós gróði fyrir samfélagið ef tekst að beygja af braut þessarar bílavæðingar. Og helst snúa allnokkur ár til baka. Athugið í því samhengi að bílaeign í höfuðborginni hefur aukist um meira en helming undanfarinn áratug.

Fyrir utan jákvæð umhverfisáhrif af færri bílum: minni mengun, svifryk, hávaði og annar hroði sem fylgir mikilli bílaumferð, er það beinlínis fjárhagslegt hagsmunamál að fækka ökutækjum á götum borgarinnar.

Sífelld þyngri umferð kallar á meiri fjárútlát til viðhalds gatna og byggingar á rándýrum umferðarmannvirkjum á borð við mislæg gatnamót.

Samfélagið hefur örugglega ýmislegt betra að gera við skattféð en að eyða því í stórfelld umferðarmannvirki. Og sparnaðinum þarf svo sem ekki að eyða í eitthvað annað, það má auðvitað líka lækka útsvarsprósentuna.

Bílar eru sem sagt kostafrekar skepnur í borgarlandslagi. Hver blikkbelja þarf að minnsta kosti tvö bílastæði, eitt heima og annað að heiman, við vinnustað eða skóla. Og bílastæði taka ekki aðeins mikið pláss og setja leiðinlegan brag á umhverfi sitt þegar þau koma mörg saman, heldur standa þau líka gjarnan á dýrmætum byggingalóðum.

Það á því ekki að koma neinum á óvart að bílastæði við skóla verða ekki ókeypis til frambúðar eins og Fréttablaðið sagði frá í síðustu viku. Í samtölum við borgaryfirvöld í tengslum við frítt í strætó-verkefnið, hefur komið fram að stjórnendur sumra skóla hafa áhuga á að nýta sér tækifærið og koma á gjaldskyldu við skólabyggingarnar. Þetta eru eðlilegar hugmyndir. Það er ekkert athugavert að þeir sem nýti sér bílastæðin greiði fyrir þá þjónustu. Gjaldskyldan myndi örugglega líka virka sem hvati á námsmenn til að nýta sér strætó og þar með létta á umferðinni eins og að er stefnt.

Gísli Marteinn Baldursson hefur verið í forystu strætó-verkefnisins, sem er hluti af metnaðarfullri umhverfisstefnu borgarinnar. Gísli Marteinn hefur sýnt lipra spretti innan meirihluta borgarstjórnar. Hann virðist átta sig á stóru myndinni og er augsýnilega að berjast fyrir einhverri hugsjón. Á sama tíma verður borgarstjóra hans, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, flest að ógæfu. Samherjar borgarstjórans af hægri vængnum uppnefna hann nú „Villa-Volgabjór" eftir ólánleg afskipti hans af Vínbúðinni í Austurstræti og segja hann dæmi um „atvinnupólitíkus eins og þeir voru upp á sitt versta alla seinustu öld" sem „vill gruflast í því hvaða búð sé í hvaða húsi", svo vitnað sé í Pawel Bartoszek sem skrifar í vefritið Deigluna.

Það er ljóst að ef Gísli Marteinn heldur rétt á spöðunum á hann alla möguleika á því að standa uppi sem foringi sjálfstæðismanna í borginni hafi hann áhuga á því. Borgarstjóri er augsýnilega kominn langt út fyrir sína getu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×