Fastir pennar

Hvað veldur?

Kynferðislegt ofbeldi gegn konum á Íslandi fer vaxandi, samkvæmt ársskýrslu Stígamóta sem greint er frá hér í Fréttablaðinu í dag. Stingur í stúf sú gífurlega aukning sem er á nauðgunum auk þess sem hópnauðgunum hefur fjölgað. Ofbeldismennirnir eru jafnframt fleiri.

Staðreyndirnar eru óhugnanlegar auk þess sem ný tegund af kynferðisglæpum gegn konum er að koma fram. Er hún rakin til klámvæðingarinnar þar sem dæmi eru um að menn hafi undir höndum myndefni af konum í kynferðis­legum athöfnum sem teknar eru með eða án þeirra samþykkis. Efninu er dreift í óþökk kvennanna eða þeim hótað slíku. Má rétt ímynda sér hversu hræðilegt er að vera á valdi einhvers sem hefur slíkt efni undir höndum.

Ekki þarf að tíunda hversu alvarlegur glæpur nauðgun er. Þess vegna sætir það undrum hversu margir telja nauðgun vera að einhverju leyti sök fórnarlambsins. Könnun sem gerð var á vegum Amnesty International í Danmörku og Englandi leiddi í ljós að meirihluti karlmanna telur fórnarlambið eiga einhverja sök að máli eða alla. Hvað þýðir það? Að konan kalli það yfir sig að láta nauðga sér? Að hún eigi það skilið að láta nauðga sér ef hún höfðar til kynhvatar karla með hegðun sinni? Hvað segir það þá um karlmenn? Að þeim sé ekki sjálfrátt? Að sjálfsögðu á fórnarlambið aldrei sök að máli. Í öðrum ofbeldisglæpum eru ekki slíkar sakir bornar upp á fórnarlömbin. Skoðanir sem þessar eru þó helsta ástæða þess að fórnarlömbin þora oft ekki að tilkynna um glæpinn þar sem þau upplifa skömmina og taka á sig ábyrgð á glæpnum. Skömmin og ábyrgðin á að sjálfsögðu að liggja hjá gerandanum.

Nauðgun felur í sér algera vanvirðingu á konum, vanvirðingu á sjálfræði þeirra og frelsi. Og að sumir karlmenn skuli taka sig saman í hópum til að nauðga konu er vægast sagt ógeðslegt. Jafnframt að menn leggi það á sig að byrla ólyfjan til þess að fremja brot. Ásetningurinn og einbeittur brotaviljinn er augljós.

Í mörg ár var forvarnastarfi beint að konum og þeim ráðlagt að passa sig. Síðustu ár hefur forvarnastarfinu verið beint að karlmönnum og þeim send þau skilaboð að það sé aldrei í lagi að nauðga. Vonandi bera þau skilaboð einhvern árangur. Skilaboðin væru ef til vill skýrari ef refsingin við slíkum glæpum væri þyngri. Hefur samfélagið kallað eftir því. Það er þó ekki lausn allra mála.

+Þeir sem nauðga eru karlmenn. Flestir þeirra eru undir þrítugu og heyrir það til algerra undantekninga að eldri karlmenn nauðgi. Liggur því við að spyrja hvað það er í menningu ungra karla sem veldur. Klámhugmyndafræðin á að sjálfsögðu einhvern hlut að máli, enda byggist hún á ofbeldishugmyndafræði. Samt eru það karlmenn á öllum aldri sem horfa á klám en ekki bara menn undir þrítugu.

Hvað er það í menningu karla sem veldur því að þeir nauðga? Þeirri spurningu er afar brýnt að svara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×