Heilsa

Barnið inni í Mr. Bean

„mér finnst ádeila mjög mikilvæg í gríni“ - breski leikarinn rowan atkinsson sem mr.bean
„mér finnst ádeila mjög mikilvæg í gríni“ - breski leikarinn rowan atkinsson sem mr.bean
Dagurinn sem ég hitti Rowan Atkinson í London var afar eftirminnilegur. Ekki bara fyrir þær sakir að ég var læstur inn á hótelherbergi með Mr. Bean í hálftíma heldur vegna þess að á þessum

degi gerðist nær yfirnáttúrulegur atburður í London. Það snjóaði. Auðvitað þótti vel viðruðum íslenskum bleiknefja eins og mér ekkert merkilegt við að sjá smá snjókomu, en Lundúnabúar höguðu sér eins og þriðja heimsstyrjöldin hefði brotist út þennan dag. Þrátt fyrir að það hefði aðeins fallið þykkur snjór í um þrjár klukkustundir lamaðis samgöngukerfi borgarinnar algjörlega og fjölmiðlar gerðu búrhval úr frumeind og lýstu atburðinum eins og um stórslys væri að ræða. Sjálfum fannst mér þessi dúnsæng sem snjórinn lagði ofan á stórborgina gefa henni afar ævintýralegan blæ en fyrir Bretanum eru allar óvæntar uppákomur vesen, og þar af leiðindum komu flestir of seint í vinnuna þennan daginn. Herra Atkinson var engin undantekning. Ég þurfti að bíða eftir honum í rúman klukkutíma á meðan leikarinn fann leið sína úr sveitinni fyrir utan borgina að hótelinu í Soho þar sem við höfðum mælt okkur mót til að ræða nýjustu mynd hans, Mr. Bean"s Holiday. Það fyrsta sem maður tekur eftir í nærveru Rowan Atkinson er hversu gríðarlega langt frá persónu sinni hann er í hreyfingum og fasi. Hann er alls ekki eins stífur eins og það gerfi sem flestir þekkja hann í og víðs fjarri því að vera þögull. Þvert á móti er hann mjög menntaður í tali, kurteis og virkar áhugasamur fyrir því að heyra það sem sagt er við hann. Viðtalið byrjar svolítið klunnalega því þegar ég er loksins leiddur inn á hótelherbergið hans opnast hurðin ekki, og Mr. Bean þannig einhvern veginn náð að læsa sig inn á herberginu. Eftir um 5 mínútur kemur hótelþjónn og bjargar málunum. Vá, þetta var ekta Mr. Bean atriði, segi ég um leið og ég fæ mér sæti við borðið. „Já, ég verð að viðurkenna það,” svarar Rowan Atkinson um leið og hann tekur í höndina á mér og hlær léttilega. Undir áhrifum frá Jacuques Tati
mr bean / rowan atkinson

Þú hefur ekki leikið Mr. Bean síðan þú slóst rækilega í gegn með fyrri myndinni um hann fyrir tíu árum síðan. Varstu farinn að sakna hans? „Já, það var akkúrat þess vegna sem ég réðst í þetta verkefni. Mér fannst eins og hann ætti eitthvað eftir. En ég verð að viðurkenna að mér líður alls ekki þannig núna eftir að hafa klárað þessa mynd.Vissulega, eftir fyrstu myndina, fannst okkur eins og það væri vel hægt að gera aðra mynd um persónuna. Þessi mynd er þónokkuð fágaðri en sú fyrri. Ekki halda þó að við höfum gert afar fágaða mynd en yfirbragð hennar er vissulega mun þroskaðra en áður. Brandararnir eru ennþá mjög einfaldir.”

Heldurðu að það hafi áhrif að þessi mynd gerist í Evrópu? „Já, alveg bókað. Það er mjög franskt yfirbragð yfir þessari mynd. Þetta er mun einfaldari saga en fyrri myndin. Eini söguþráðurinn er í rauninni ferðalag Mr. Bean á ströndina. Bean talaði eitthvað smávegis í síðustu mynd, en vanalega segir hann aldrei neitt. Það er mikill kostur. Það er samt meiri vinna þegar maður er að skjóta, því maður þarf að segja söguna sjónrænt. Það var líka ein af ástæðunum fyrir því að myndin gerist í Frakklandi, þannig að hann hefði enga leið til þess að tjá sig. Hann talar ekki tungumálið.”

Af hverju vilduð þið gera fágaðri mynd um jafn ófágaða persónu? „Við ætluðum okkur nú að gera fágaðri mynd en við enduðum uppi með. Égheld að okkur hafi ekki almennilega tekist að framkvæma háfleygari metnað okkar. Við vildum bara vera örlítið hugrakkari hvað grínið varðar. Við vorum að reyna fanga þessa tilfinningu að hafa litla veru í stóru landslagi. Það eru nokkur þannig skot í myndinni, og það er ótrúlega fyndið að sjá Mr. Bean þegar hann er pinku lítill á skjánum.”

Dáist þú af mörgum gamanleikurum? „Já, vissulega. Þegar ég var um 17 ára gamall var ég mikill aðdáandi franska gamanleikarans Jacques Tati. Hann var mér mikill innblástur. Ég er mjög hrifinn af John Cleese og Woody Allen. Svo hef ég alltaf verið hrifinn af Barry Humphrey sem engin þekkir undir nafni, en allir þekkja persónu hans Dame Edna.”

Hefur þú gaman að því að klæða þig í kvenmannsföt? „Nei, en ég geri það í lok þessarar myndar, og það kemur ágætlega út. Ég lít aldrei vel út í drag. Það virkar fyrir suma, en það gerir það eiginlega ekki fyrir mig.”

Þú lítur þá kannski ekkert út eins og einhver gömul frænka þín? „Jú, svona á yfirborðinu kannski en ég hef bara alls ekki líkamsburðina til þess að vera flottur í dragi.”

Hvað var það við Jacques Tati sem þér líkaði svona vel við, var það ádeilan? „Ólíkt honum er Mr. Bean ekki satíra á nokkurn hátt. Seinni myndir Tati voru án efa fullar af ádeilu á þjóðfélagið og pólitík. Ég kunni bara að meta það við hann að hann var ekkert fyrir málamiðlanir. Brandararnir voru fyndnir og hann gerði bara nákvæmlega það sem hann langaði. Hann tók sér líka sinn tíma. Í mörgum mynda hans eru atriði sem hafa heilmikið rými. Ég kunni betur við hann sem skemmtikraft en listamann. Þannig hafði hann áhrif á þessa nýju Bean mynd, því við gefum sumum bröndurunum mun meiri tíma til þess að þróast áður en við skellum þeim á áhorfendur. Grín snýst um takt. Hann getur verið mjög hægur en samt órúlega fyndin þegar hann kemst á endann.”

Osama bin Laden og Borat
mr bean / rowan atkinson

Er eitthvað viðfangsefni sem þú myndir aldrei snerta á, þú sagðist einhverntímann vilja gera grín af Osama bin Laden?

„Nei, ég held að ádeila sé mjög mikilvæg í gríni. Ég myndi ekki hika við að gera grín af einhverjum á borð við Osama bin Laden, en maður verður að finna réttan snertiflöt. Það er t.d. alveg hægt að gera grín að þannig manni án þess að gera lítið úr trú hans og fylgendum. Mér dettur strax í hug að það sé hægt að gera grín af því að hann hafi verið í felum jafn lengi og raun ber vitni, eða að hann skuli hafa horfið eins og hann gerði. Hvar er hann? Hvað fær hann sér í morgunmat og svo framvegis. Ég hef hitt einstakling sem hitti hann nokkrum sinnum í matarboðum á meðan hann bjó hérna í London. Mér finnst eitthvað mjög fyndið við þá hugmynd að Osama bin Laden hafi verið staddur í bresku matarboði í Kensington. Þannig er hægt að velja sér ýmsa snertifleti sem snúast ekkert um hryðjuverk, heldur bara þær aðstæður sem einstaklingurinn hefur komið sér í.

Skiptir það þig miklu máli að halda aðdáendum þínum ánægðum? “Ég finn fyrir hvöt til þess að gleðja áhorfendur, en ég verð fyrst og fremst að gleðja sjálfan mig. Eðlishvöt mín er þannig að ég laðast að einföldum hlutum, sem margir skilja og gleðja þannig fjöldann. Þannig að mér finnst ekki erfitt að tileinka mér það að skemmta fjöldanum í stað þess að einbeita mér að minnihlutahópum. Ég er þannig gerður að mér finnst skemmtilegra að skemmta þremur einstaklingum en tveimur. En ég mun ekki skemmta öðrum ef það þýðir að ég neyðist til þess að halda aftur af mér vegna málamiðlanna. Ég er bara svo heppinn að hafa mjög einfaldan smekk.”

Hvað er það óþægilegasta sem þú hefur þurtt að gera sem gamanleikari? „Að gera eitthvað sem er „óþægilegt” eða „hneykslandi” gefur í skyn að þú sért í hinum raunverulega heimi. Í heimi skáldsagnanna getur ekkert verið óþægilegt eða hneykslandi því allt er tilbúið. Ég hef mjög sjaldan leikið Mr. Bean í raunheiminum. Ég man eftir því að hafa leikið Mr. Bean á bókaráritun í Harrods. Ég var leiddur á hestvagni til Harrods þar sem Al Fayed tók á móti mér. Svo þurfti ég að fara inn í búðina og að gefa eiginhandaráritanir í karakter. Maður finnur fyrir gífurlegu afli. Mér leið eins og ég mætti og gæti gert hvað sem er. Mér leið ekki eins og að ég væri ég. Þetta er eins og að mega hætta vera maður sjálfur í smá tíma. Engin mun setja út á aðgerðir þínar, sem var mjög undarlegt. Ég gerði ekkert svo brjálað en þetta er einmitt það sem er svo merkilegt við Sacha Baron Cohen. Ég dáist að hugrekki hans. Ef hann yrði handtekinn, hver yrði þá dæmdur? Þeir yrðu að dæma skáldsagnarpersónuna.”

Krefst fólk þess af þér í þínu venjulega lífi að þú sért stöðugt fyndinn? „Nei, kannski börn. Ég held að fólk viti almennt að ég sé mjög frábrugðin þeim persónum sem ég leik. Fólk býst því ekki við neinu.”

Barnalegur Bean
bbb

Ertu stoltari af Mr. Bean en öðrum sköpunarverkum þínum? „Hann hefur vissulega verið mjög grunsamlega eftirsóttur, og átt miklum vinsældum að fagna. Ég verð eiginlega að svara já, nokkurn veginn. Ég er jafn hrifinn af Black Adder, en hann er vissulega hvergi eins þekktur og Mr. Bean. Black Adder er skemmtilegur, en mjög einhliða persóna. Í gegnum árin hef ég verið að uppgötva nýjar og nýjar hliðar á Mr. Bean, og ég held að okkur takist að finna enn nýja hlið á honum í þessari nýju mynd. Við fáum að sjá hlið af honum sem mér finnst mjög áhugaverð.” Það er mögnuð sena í myndinni þar sem Mr. Bean kynnist franskri matargerð frá fyrstu hendi, þegar hann fer á fínt fiskiveitingahús í París. „Við vildum sjá hvernig Bean myndi bregðast við sniglum, ostum og hvers kyns mat. En enduðum svo bara á því að nota humar og ostrur.” Það magnaðasta við Bean er hversu auðveldlega hann höfðar til mismunandi menningarheima. Hann er samt mjög breskur.

Hver er þín skýring á vinsældum hans? „Ég held að það sé vegna hversu barnalegur hann er. Fólk frá öllum löndum tengir sig við barnið innan mannsins. Börn tengja sig svo auðvitað við hann líka. Þau vita að hann er eins og þau. Þess vegna held ég að hann sé svona alþjóðlegur. Þegar kemur að bresku hlið hans, þá er það auðvitað mikið klæðnaður hans. Hann er líka breskur að því leyti að hann reynir að aðlaga sig að hlutum í kringum sig, en bara þar til að það hentar honum ekki lengur. Þá gerir hann bara hvað sem honum sýnist. Hann er náttúrulegur anarkisti, sem fylgir reglunum. En ef þær henta honum ekki fleygir hann þeim út um gluggann. Hann er algjörlega sjálfshverfur, eins og barn. Einhverjir myndu segja að hann væri svolítið taugastrekktur, sem er líka mjög breskt.”

Af hverju valdir þú nafnið Mr. Bean? „Það var bara eitthvað sem greip okkur. Það var stutt og fyndið. Fyrst hét hann reyndar Mr. White, en það breyttist eftir um eina viku,” og þar með rennur tíminn okkar út. Rowan þakkar pent fyrir sig og undirbýr sig undir næstu spurningarunu um leið og ég kveð.








×