Handbolti

Alfreð: Þveröfugt við síðustu Íslandsför

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson og Sverre Jakobsson ræða málin við liðsfélaga sinn í Gummersbach í kvöld.
Róbert Gunnarsson og Sverre Jakobsson ræða málin við liðsfélaga sinn í Gummersbach í kvöld.

Alfreð Gíslason var hæstánægður með sigur sinna manna í Gummersbach á Val í kvöld.

Alfreð er eins og kunnugt er einnig þjálfari íslenska landsliðsins og þekkir því vel til Valsmanna.

„Ég er mjög ánægður með leikinn. Sem betur fer náðum við góðu forskoti strax en það var það sem ég lagði upp með við strákana. Þeir þurftu að taka þetta af mikilli einbeitingu. Eftir það gat ég farið að skipta mönnum út af og dreifa álaginu á allt liðið," sagði Alfreð við Vísi í kvöld.

Gummersbach kom einnig í fyrra vegna Meistaradeildar Evrópu og lék þá við Fram.

„Þessi leikur er þveröfugur við þann leik. Þá byrjuðum við afspyrnuilla og stungum þá fyrst af síðasta korterið. Þá þurfti ég að spila með byrjunarliðið allan tímann."

Hann sagði að sér þætti afar gaman að koma hingað til lands sem þjálfari Gummersbach.

„Ég hefði að vísu óskað þess að húsið hefði verið fullt en stemningin var mjög góð og allur aðbúnaður af hendi Valsmanna var frábær."

Alfreð sagði að hann hefði trú á því að Celje Lasko og Gummersbach kæmust áfram upp úr riðlinum sem væri engu að síður mjög sterkur og því skipta allir leikir miklu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×