Flugstjórnarmál enn í uppnámi 29. desember 2006 05:00 Enn á ný er flugstjórnarmálum á Íslandi stefnt í óefni af völdum flugumferðarstjóra. Þeir hafa oft á undanförnum árum haft uppi miklar kjarakröfur, og virðist hafa orðið töluvert ágengt í krafti stöðu sinnar við að sinna mikilvægum störfum við flugumferðarstjórn á mjög stóru svæði á hafinu í kringum Ísland. Það eru reyndar ekki aðeins flugumferðarstjórar hér á landi sem hafa sett flug á ákveðnum svæðum í uppnám, því kollegar þeirra hafa oft á tíðum valdið miklum truflunum á flugumferð með aðgerðum sínum víða um heim. Þetta virðist fylgja flugumferðarstjórum hverrar þjóðar sem þeir eru. Grunnorsökin að uppnámi flugumferðarstjóra að þessu sinni, er breytt rekstrarfyrirkomulag flugstjórnarmála hér á landi. Stofnað var fyrr á árinu sérstakt félag um flugumferðarþjónustuna hér, eins og dæmi um annars staðar. Þetta félag á að taka formlega til starfa á nýársdag, en það blæs ekki byrlega fyrir um rekstur þess á fyrstu starfsdögum. Fyrirsjáanlegt er að truflanir verða á flugstjórn á íslenska flugstjórnarsvæðinu, en vonandi hefur sú truflun ekki alvarlega atburði í för með sér. Langstærstur hluti starfsmanna Flugmálastjórnar hefur ákveðið að færa sig yfir til hins nýja félags, sem verður svokallað opinbert hlutafélag líkt og stefnt er að með Ríkisútvarpið. Það er eðlilegt að starfsmenn, sem lengi hafa verið opinberir starfsmenn, beri ugg í brjósti þegar rekstrarfyrirkomulagi stofnana þeirra er breytt, og á það ekki síst við um eldri starfsmenn og ekki síst hvað varðar lífeyrissjóðsmál allra starfsmanna þessara stofnana. Samkvæmt yfirlýsingum ráðamanna, hefur lífeyrisréttur flugumferðarstjóra verið tryggður, þannig að þeir eiga ekki að tapa neinu á því sviði. Þeir einir meðal starfsmanna Flugmálastjórnar hafa hins vegar notað tækifærið til að knýja á um breytt og betri kjör, þrátt fyrir að þeir séu með gildan kjarasamning sem ekki rennur út fyrr en árið 2008. Flugmálayfirvöld máttu vita að flugumferðarstjórar yrðu ekkert lamb að leika sér við þegar kæmi að breyttu rekstrarfyrirkomulagi, og því hefðu þau átt að vera við því búin að þurfa að fara samningaleiðina í þessu máli. Stífni á þeim vængnum í samskiptum við óbilgjarna flugumferðarstjóra gæti orðið okkur dýrkeypt. Forvígismenn í flugi hér á landi unnu kraftaverk með því að byggja upp íslenska flugstjórnarsvæðið, en nú eru blikur á lofti varðandi það. Það er mjög slæmt til afspurnar fyrir okkur að þessi deila sé nú komin í mikinn hnút. Hætta er á að aðrar þjóðir taki nú yfir hluta af stjórn á svæðinu með nýju ári, og það gæti því orðið erfitt að heimta þann hlut aftur. Flugfélög sem stunda flug milli meginlands Evrópu og Ameríku verða fljót að láta í sér heyra, ef þau geta ekki notað hagkvæmustu leiðir yfir hafið, og flugumferðarstjóradeilan á Íslandi fer að hafa áhrif á eldsneytiskostnað og flugtímann á milli mikilvægra áfangastaða þeirra. Það er því mikið í húfi í fyrir okkur að geta haldið uppi eðlilegri starfsemi á íslenska flugstjórnarsvæðinu, en það virðist hins vegar stefna í minni og lakari þjónustu vegna þess að flugumferðarstjórar ætla sér að ná verulegum kjarabótum út á breytingar á rekstri flugumferðarþjónustunnar hér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kári Jónasson Mest lesið Halldór 15.11.2025 Halldór Snýst um deilur Dags og Kristrúnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Milljarðakostnaður sérfræðinga Vilhjálmur Hilmarsson Skoðun Tími kominn til að hugsa um landið allt Ingibjörg Isaksen Skoðun Hvað þýðir „að vera nóg“ Sigurður Árni Reynisson Skoðun Hver er uppruni íslam? Finnur Thorlacius Eiríksson Skoðun Nýjar lóðir í betri og bjartari borg Einar Sveinbjörn Guðmundsson Skoðun „Mamma, eru loftgæðin á grænu?“ Sara björg Sigurðardóttir Skoðun Ég á þetta ég má þetta Arnar Atlason Skoðun Ef eitthvað væri að marka Bjarna Gunnar Smári Egilsson Skoðun
Enn á ný er flugstjórnarmálum á Íslandi stefnt í óefni af völdum flugumferðarstjóra. Þeir hafa oft á undanförnum árum haft uppi miklar kjarakröfur, og virðist hafa orðið töluvert ágengt í krafti stöðu sinnar við að sinna mikilvægum störfum við flugumferðarstjórn á mjög stóru svæði á hafinu í kringum Ísland. Það eru reyndar ekki aðeins flugumferðarstjórar hér á landi sem hafa sett flug á ákveðnum svæðum í uppnám, því kollegar þeirra hafa oft á tíðum valdið miklum truflunum á flugumferð með aðgerðum sínum víða um heim. Þetta virðist fylgja flugumferðarstjórum hverrar þjóðar sem þeir eru. Grunnorsökin að uppnámi flugumferðarstjóra að þessu sinni, er breytt rekstrarfyrirkomulag flugstjórnarmála hér á landi. Stofnað var fyrr á árinu sérstakt félag um flugumferðarþjónustuna hér, eins og dæmi um annars staðar. Þetta félag á að taka formlega til starfa á nýársdag, en það blæs ekki byrlega fyrir um rekstur þess á fyrstu starfsdögum. Fyrirsjáanlegt er að truflanir verða á flugstjórn á íslenska flugstjórnarsvæðinu, en vonandi hefur sú truflun ekki alvarlega atburði í för með sér. Langstærstur hluti starfsmanna Flugmálastjórnar hefur ákveðið að færa sig yfir til hins nýja félags, sem verður svokallað opinbert hlutafélag líkt og stefnt er að með Ríkisútvarpið. Það er eðlilegt að starfsmenn, sem lengi hafa verið opinberir starfsmenn, beri ugg í brjósti þegar rekstrarfyrirkomulagi stofnana þeirra er breytt, og á það ekki síst við um eldri starfsmenn og ekki síst hvað varðar lífeyrissjóðsmál allra starfsmanna þessara stofnana. Samkvæmt yfirlýsingum ráðamanna, hefur lífeyrisréttur flugumferðarstjóra verið tryggður, þannig að þeir eiga ekki að tapa neinu á því sviði. Þeir einir meðal starfsmanna Flugmálastjórnar hafa hins vegar notað tækifærið til að knýja á um breytt og betri kjör, þrátt fyrir að þeir séu með gildan kjarasamning sem ekki rennur út fyrr en árið 2008. Flugmálayfirvöld máttu vita að flugumferðarstjórar yrðu ekkert lamb að leika sér við þegar kæmi að breyttu rekstrarfyrirkomulagi, og því hefðu þau átt að vera við því búin að þurfa að fara samningaleiðina í þessu máli. Stífni á þeim vængnum í samskiptum við óbilgjarna flugumferðarstjóra gæti orðið okkur dýrkeypt. Forvígismenn í flugi hér á landi unnu kraftaverk með því að byggja upp íslenska flugstjórnarsvæðið, en nú eru blikur á lofti varðandi það. Það er mjög slæmt til afspurnar fyrir okkur að þessi deila sé nú komin í mikinn hnút. Hætta er á að aðrar þjóðir taki nú yfir hluta af stjórn á svæðinu með nýju ári, og það gæti því orðið erfitt að heimta þann hlut aftur. Flugfélög sem stunda flug milli meginlands Evrópu og Ameríku verða fljót að láta í sér heyra, ef þau geta ekki notað hagkvæmustu leiðir yfir hafið, og flugumferðarstjóradeilan á Íslandi fer að hafa áhrif á eldsneytiskostnað og flugtímann á milli mikilvægra áfangastaða þeirra. Það er því mikið í húfi í fyrir okkur að geta haldið uppi eðlilegri starfsemi á íslenska flugstjórnarsvæðinu, en það virðist hins vegar stefna í minni og lakari þjónustu vegna þess að flugumferðarstjórar ætla sér að ná verulegum kjarabótum út á breytingar á rekstri flugumferðarþjónustunnar hér.