Fastir pennar

Ríkisvæddir stjórnmálamenn

Það munu vera allmörg ár síðan hafin var umræða hér á landi um að fjármál stjórnmálaflokkanna ættu að vera opinber. Engin launung ætti að vera á hver borgaði hve mikið til hvaða stjórnmálaflokks. Sjálfstæðisflokkurinn barðist mjög ákveðið gegn öllum tillögum af þessu tagi. Í sandkassaumræðum, sem stjórnmálaumræður breytast því miður alloft í sögðu sjálfstæðismenn gjarnan við hina: „Hvað eruð þið að kvarta, það bannar ykkur enginn að birta reikningana ykkar." Þegar umræður af þessu tagi rifjast upp fyrir konu, veltir hún því stundum fyrir sér hvort hún sé með „fulle femm" að hafa áhuga á þeim bransa sem stjórnmál eru.

Stjórnmálaflokkarnir hafa unnið saman að málinu og nú er það úr sögunni, farsællega leyst. Sumir segja meira að segja: „Loksins, loksins". Geðfelldi ungi framsóknarmaðurinn í borgarstjórninni sagði frá því í sjónvarpsþætti um daginn að hann hefði aukinheldur ráðið pólitískan andstæðing sinn til að starfa fyrir nefndina sem vann frumvarpsdrögin um fjármál stjórnmálaflokkanna, sem nú hafa verið samþykkt á Alþingi. Hann mun hafa sett nefndina á stofn þegar hann var aðstoðarmaður forsætisráðherra. Ekki furða þó að ungt fólk sækist eftir að vera aðstoðarfólk ráðherranna.

Í gamla daga var stundum sagt að það væri ástæða til að verða óttasleginn ef íhaldið og kommarnir væru sammála um einhvern hlut, þá væri ábyggilega eitthvað á seyði sem ekki lægi alveg í augum uppi. Ég held að það sé óhætt að segja að þegar allir þingflokkar eru sammála og leggja fram frumvarp í sameiningu þá sé rétt fyrir okkur kjósendur að hafa verulegar áhyggjur. Eftirlaunafrumvarpið sem samþykkt var fyrir réttum þremur árum er skýrasta dæmið um það.

Það er ekki oft sem ég er sammála ungum sjálfstæðismönnum, enda konan krati. Í þessu máli vil ég hins vegar hrópa húrra fyrir þeim. Í umsögn SUS - Sambands ungra sjálfstæðismanna - segir orðrétt að þeir telji: „Að megingalli frumvarpsins sé sú forsenda sem höfundar gefa sér, að ríkisvaldið sé uppspretta lýðræðisins og að í skjóli ríkisvaldsins þrífist lýðræðið best. Með því að ríkisvæða stjórnmálamenn og flokka eru reistar hindranir gegn því að nýjar hugmyndir, nýir flokkar og nýtt fólk nái brautargengi. Þetta er andstætt lýðræðinu." Svo mörg voru þau orð. Vá, ég vildi að ég hefði skrifað þetta. Fyrst mér bar ekki gæfa til þess, þá tek ég bara undir hvert einasta orð.

Í fréttum í vikunni kom fram að tveir hópar, sem ekki hafa fyrr boðið fram í kosningum hugi að því að gera það í vor. Annars vegar eitthvað af því fólki sem starfar innan félagsskaparins sem kallar sig Framtíðarlandið og hins vegar eldri borgarar. Í fréttum kom fram að lögin glænýju eru hins vegar hindrun á þeirri leið vegna þess að hömlur eru settar á styrki sem þessir hópar mega þiggja. Ef Jóhannes í Bónus eða Björgólfur í bankanum byðust til að kosta kosningabaráttuna, fyrir opnum tjöldum - allt uppi á borðum - þá mega þeir það ekki - barasta bannað. Það er vegna þess að styrkir sem eitthvað munar um til stjórnmálastarfsemi mega bara koma úr ríkissjóði og þeir einu sem geta fengið styrki þaðan eru stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi. Þetta segja nú lögin í landinu. Einhvern tímann var talað um sósíalisma andskotans - þetta er væntanlega ekki alveg það sama, en mér dettur bara ekkert annað hugtak í hug.

Það er óþolandi ef auðmenn eða fyrirtæki kosta stjórnmálaflokka án þess að það sé fyrir opnum tjöldum. Þess vegna hélt ég að fólk berðist fyrir því að fjármál stjórnmálaflokka yrðu gerð opinber. En það er jafn óþolandi að með því að misnota fulltrúalýðræðið séu þingmenn búnir að koma málum þannig fyrir að einungis þeir sem fyrir eru í stjórnmálum eigi möguleika á að taka þátt í þeim leik. Með þessari misbeitingu valdsins eru þingmennirnir búnir að tryggja fjórflokkinn og sjálfa sig í sessi. Eina ferðina enn standa kjósendur vanmáttugir gagnvart vondum verkum fulltrúa sinna á Alþingi. Nú sem aldrei fyrr, því búið er að setja fjárhagslegar skorður gegn því að aðrir en þeir sem fyrir eru geti boðið fram.

Auk þess legg ég til að eftirlaunaósóminn verði afnuminn með lögum.

Eina ferðina enn standa kjósendur vanmáttugir gagnvart vondum verkum fulltrúa sinna á Alþingi. Nú sem aldrei fyrr, því búið er að setja fjárhagslegar skorður gegn því að aðrir en þeir sem fyrir eru geti boðið fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×