Fastir pennar

Glæpur og refsing

Þegar lög eru brotin, eða grunur vaknar um lögbrot, segja fjölmiðlar gjarnan af því fréttir. Hvernig tekið er á málum, hvort birt séu nöfn og ljósmyndir af þeim sem koma við sögu þurfa þeir sem stýra fréttum að vega og meta í hverju tilfelli.

Fréttir af ofsaakstri eru til að mynda í fæstum tilvikum tilefni til nafn- og myndbirtingar. Undantekningartilfellið gæti þó til dæmis verið ef samgönguráðherra eða formaður Umferðarráðs væru gripnir glóðvolgir við slíkt athæfi. Þá þætti engum skrýtið ef fjölmiðlar greindu skilmerkilega frá brotum þeirra með mynd og nafni, enda menn sem starfa sinna vegna er hægt að gera sérstakar kröfur til á vegum úti.

Yfirleitt er þó öllu flóknara að meta hvenær er við hæfi að fjalla opinskátt um þá sem grunaðir eru um að hafa brotið af sér. Seint verður fest niður ein regla í þeim efnum enda skoðanir vægast sagt misjafnar á málinu.

Annar angi af umfjöllun fjölmiðla um sakamál er sú útbreidda hugmynd að ákveðin refsing geti falist í því að lenda í kastljósi fjölmiðlanna. Í sumum tilfellum hafa dæmdir menn jafnvel sagt að umfjöllun fjölmiðla um mál þeirra hafi verið þeim þungbærust.

Fjölmiðlar dæma hins vegar engan til refsingar heldur flytja fréttir sem í hlutarins eðli geta aldrei verið öllum að skapi. Í þessu samhengi er rétt að minna á að sú tilhneiging að vilja fella boðbera slæmra tíðinda er gamalkunn og erfið við að eiga.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur bar það við að í byrjun vikunnar féll dómur í manndrápsmáli sem ekki var hægt að skilja á annan hátt en þann að hinum ákærða væri metið til refsilækkunar að fréttir höfðu verið fluttar af máli hans, eða eins og Jónas Jóhannsson héraðsdómari orðaði það "vegna þess hve óvægna umfjöllun ákærði hefur sannanlega hlotið fyrir atlöguna hjá einstökum fjölmiðlum".

Sem betur fer er þetta ekki algengt sjónarmið dómara, því þarna er komið út á mjög svo hálan ís.

Þetta er þó ekki fordæmalaust því í fyrravor skilaði Jón Steinar Gunnlaugson hæstaréttardómari sérákvæði þar sem mátti greina svipuð sjónarmið til dómsvalds fjölmiðla.

Í tilefni af nýföllnum héraðsdómi er rétt að rifja upp það sem hér var skrifað í kjölfar sératkvæðis Jóns Steinars, um þau vandkvæði sem dómstólar standa frammi fyrir ef þeir kjósa að hafa fréttir sem viðmið í dómum sínum.

Fyrsta spurning er: Hvaða forsendur eiga þeir að gefa sér þegar mælistika er lögð á opinbera umfjöllun? Er það fjöldi ljósmynda sem birtast af sakborningi? Hversu margir dálksentimetrar eru skrifaðir og hversu margar mínútur eru lagðar undir mál hans í ljósvakamiðlunum? Þá hlýtur líka að verða að taka tillit til útbreiðslu fjölmiðlanna, lestrar þeirra og áhorfs. Eiga dómarar að styðjast við kannanir á þeim þáttum svo hægt sé að meta til hversu margra fréttaflutningurinn náði og þar með hversu stóran afslátt eigi að gefa sakborningi af refsingunni?

Hversu vonlaus leið þetta er sést best á því að klókur verjandi gæti búið svo um hnútana að umfjöllun og ljósmynd af skjólstæðingi hans birtist í fjölmiðlum og vonað að það yrði sakamanninum til refsilækkunar.

Fjölmiðlar flytja fréttir og dómstólar eiga að dæma óháð þeim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×