Fastir pennar

Ísland sem einleikshljóðfæri

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur kom einu sinni sem oftar inn á skrifstofuna mína í Odda glaður og reifur og settist í sófann. ,,Veizt þú, Þorvaldur minn, hvað við Albert og Eysteinn eigum sameiginlegt? Svona eiga samtöl að hefjast, hugsaði ég með mér, en svarið við spurningunni vissi ég ekki. Albert Guðmundsson knattspyrnukappa og síðar fjármálaráðherra þekkti ég ekki af eigin raun, en Eysteini Jónssyni ráðherra mundi ég vel eftir, hann kom stundum heim að rífast við pabba, t.d. þegar vinstri stjórnin var að því komin að springa 1958 og húsið skalf, af því að Eysteinn var svo æstur, og pabbi líka. Guðmundur svaraði spurningunni sjálfur: ,,Við erum fóstursynir Jónasar." Þannig var, að Guðmundur var barn að aldri heimagangur hjá Jónasi fyrir vinskap móður sinnar við dóttur Jónasar. Jónas gaf sig að drengnum, hann hændist að ungu fólki. Og árin líða. Guðmundur kemst á unglingsár og siglir þungan sjó og fær þá skyndilega boð um skólavist í Menntaskólanum á Akureyri og þekkist það og lýkur stúdentsprófi með sóma. Skýringin á boðinu um vistina fyrir norðan reyndist vera sú, að Þórarinn Björnsson skólameistari hafði fengið símhringingu að sunnan. Það var Jónas að biðja meistarann fyrir umkomulausan strák, sem Menntaskólinn í Reykjavík hefði ekki burði til að koma til manns og mennta. ,,Þetta var það eina, sem Jónas frá Hriflu bað Menntaskólann á Akureyri um, og því varð ekki hafnað," sagði Þórarinn síðar. Jónas hafði á ráðherraárum sínum 1927-31 átt frumkvæði að stofnun Menntaskólans á Akureyri, öðrum þræði til höfuðs embættisvaldinu fyrir sunnan og þá um leið gegn Menntaskólanum í Reykjavík. Þannig var Jónas, þegar því var að skipta: yndislegur. Hann gat líka verið harður í horn að taka, svo harður, að Ísland logaði stafnanna á milli í illdeilum fyrir tilstilli Jónasar. Hann var Sturlungaöldin endurborin í einum manni. Hann fór vel af stað, upptendraður af brezkum eldmóði. Hann stofnaði ásamt öðrum Alþýðuflokkinn handa verkamönnum og sat í stjórn flokksins fyrsta kastið eins og Guðjón Friðriksson rifjaði upp á málþingi í Háskólanum í Bifröst 1. maí. Síðan stofnaði Jónas með öðrum Framsóknarflokkinn handa bændum og helgaði honum ómælda krafta sína, þangað til flokksmenn fengu meira en nóg af ráðríki hans og tjörguðu hann og fiðruðu fyrir miðjan aldur. Guðjón telur, að kaupmenn og aðrir hafi ekki þorað annað en að stofna Sjálfstæðisflokkinn 1929 til að reyna að sporna gegn áhrifum Jónasar. Honum dugði ekki minna en að stofna þrjá flokka. Ísland var harpa, og hann var hörpuleikarinn. Jónas lauk ekki prófum eftir námsdvalir sínar í útlöndum, eins og Helgi Skúli Kjartansson lýsti í Bifröst, en hann rækti sjálfan sig m.a. með tíðum utanferðum. Bændur lögðu margir mikla rækt við menntun sína á fyrstu áratugum 20. aldar: þeir lásu saman útlendar bækur á lestrarfélagsfundum og fóru út að afla sér frekari upplyftingar. Þá þyrsti í erlendan fróðleik og fyrirmyndir, þótt þeir kysu að bægja frá sér erlendri samkeppni og læsa landið í viðskiptaviðjar eftir 1920. Jónas var eiginlega opingáttarmaður innst inni eins og margir bændur, þótt hann yrði helzti holdgervingur innilokunarstefnunnar. Hann kom víða við, var lengi blaðamaður meðfram stjórnmálastörfum og skólamaður og uppfræðari fram í fingurgóma: hann rækti þá köllun alla ævi og hafði að mörgu leyti holl áhrif á framgang fræðslumálanna, eins og Helgi Skúli lýsti vel á málþinginu. Flokkakerfið, sem Jónas lagði grunninn að og flutti inn að utan, stendur enn í stórum dráttum. Höfuðkenning hans um þjóðfélagsmál um yfirburði sveitanna og lykilhlutverk þeirra í samfélagsgerðinni reyndist á hinn bóginn röng og virtist hvíla á rómantískri óskhyggju og fortíðarfíkn og þeirri skoðun, að börnum væri hollast að alast upp í sveit. Jónas vanmat áhrif tækniframfara á sveitirnar. Honum sást yfir það, að vélvæðing landbúnaðarins myndi smátt og smátt draga svo úr þörfinni fyrir vinnuafl til sveita, að þungamiðja atvinnulífs og menningar hlyti að færast í þéttbýli. Og þó: kannski sá hann það fyrir, því að honum tókst ásamt öðrum að búa svo um hnútana, að fulltrúar dreifðra byggða hafa í reyndinni ráðið mestu um landsstjórnina fram á þennan dag, enda þótt mikill og sívaxandi hluti þjóðarinnar hafi þjappað sér æ þéttar saman fyrir sunnan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×