Fastir pennar

Virðing í viðskiptum

Menn öðlast hver með sínum hætti virðingu í viðskiptum. Til hægðarauka má kannski skipta virðingarmönnum viðskiptalífsins í þrjár tegundir. Byrjum á Ragnari Jónssyni í Smára. Hann átti eina hugsjón í viðskiptum: að gera öðrum gott. Hann hafði, að ég held, engan sérstakan áhuga á smjörlíkinu, sem hann seldi, eða sápunni – hann, sem logaði af áhuga á öllu, sem lífið hefur upp á að bjóða: hann bara framleiddi þetta í þar til gerðum verksmiðjum og setti á markað og seldi og notaði drjúgan part af tekjunum til að koma fótunum undir fátæka listamenn. Guðný Halldórsdóttir leikstjóri hefur lýst þessu prýðilega í nýrri kvikmynd um Ragnar. Björg Ellingsen, eiginkona Ragnars, var auðvitað með í ráðum; menn ráðstafa ekki eignum sínum án þess að spyrja konuna. Þau bjuggu þröngt og bárust lítið á, en Ragnar var stórveldi í lifanda lífi. "LMF" kallaði hann einu sinni til kunningja síns yfir Hverfisgötuna: Látum menninguna í friði! Sigurliði Kristjánsson – Sillaparturinn af Silla og Valda – átti sömu hugsjón og Ragnar, að gera öðrum gott, og hún kom í ljós eftir hans dag. Þau hjónin, Sigurliði og Helga Jónsdóttir, skildu eftir sig eina veglegustu dánargjöf Íslandssögunnar – gjöf, sem kom fótunum undir Íslensku óperuna á sínum tíma og skipti einnig sköpum fyrir Leikfélag Reykjavíkur og Listasafn Íslands o.fl. Minningin um Sigurliða og Helgu leiðir hugann að danska skipakóngingum Mærsk Mc-Kinney Møller og Emmu konu hans, en þau hafa nýverið gefið dönsku þjóðinni nýtt og glæsilegt óperuhús. Húsið stendur á hólmi í hjarta Kaupmannahafnar og er viðeigandi umgerð um danskan óperusöng, sem ber nú aftur hróður Danmerkur út um allan heim. Enda kemur maður varla svo í evrópskt óperuhús, að danskir söngvarar séu þar ekki í hlutverkum, og stundum íslenzkir. Önnur tegund viðskiptajöfra fer aðra leið að sama marki: þeir bjóða vöru og þjónustu við lægra verði en áður og lyfta með því móti kjörum almennings, fátæks fólks ekki sízt. Pálmi Jónsson í Hagkaupi var þessarar gerðar. Hann réðst gegn úreltum viðskiptaháttum og lækkaði vöruverð til muna. Jóhannes Jónsson í Bónusi fór sömu leið, og árangurinn af starfi þeirra og annarra blasir við: vöruverð er nú lægra en áður, úrvalið meira, varan betri og þjónustan. Samt heldur ríkisvaldið áfram að þvælast fyrir með því að ríghalda í úr sér gengnar hömlur gegn innflutningi ódýrrar matvöru frá útlöndum. Jóhannes nær einnig yfir í fyrri flokkinn, flokk þeirra Ragnars og Sigurliða, því að hann hefur stutt og styrkt ýmis góðgerðarmál af myndarskap, t.d. Barnaspítala Hringsins. Bill Gates í Microsoft á nú einnig heima í báðum flokkum: hann og Melinda Gates hafa t.d. heitið rösklega 50 milljörðum króna til að kosta bólusetningar barna í þróunarlöndum á móti norsku ríkisstjórninni, sem leggur tæpa 20 milljarða í púkkið. Dásamlegt. Og þriðja tegundin? Það eru menn, sem ryðja nýjar brautir, nema ný lönd og ná árangri, handa öðrum. Ingólfur Guðbrandsson ferðamálafrömuður er slíkur frumkvöðull: hann opnaði Íslendingum leið suður í álfu og olli með því móti straumhvörfum í ferðamálum landsins. Hann gerði ferðalög út fyrir landið að almenningseign, því að áður höfðu vart aðrir en eignamenn, embættismenn og stúdentar haft tök á tíðum ferðum til annarra landa. Ingólfur átti drjúgan þátt í að opna Ísland. Mér sýnist tímabært að skipa Sigurði Helgasyni, fráfarandi forstjóra Flugleiða, í sama flokk. Þegar Sigurður tók við stjórn Flugleiða fyrir 20 árum, var fyrirtækið nánast eins og eitt ráðuneytanna. Keppinautar skutu upp kollinum annað veifið og voru kveðnir niður jafnharðan með ýmsum ráðum, enda hafði ríkið alla þræði viðskiptalífsins í hendi sér: allir vissu þetta, þótt enginn vildi við það kannast. Sigurði Helgasyni hefur ásamt öðrum tekizt að færa Flugleiðir inn í nútímann og gera fyrirtækið að öflugu og víðfeðmu ferðafyrirtæki, sem gengur vel og nýtur virðingar um heiminn. Breytingin frá fyrri tíð sést vel á því, að Flugleiðir hafa nú um nokkurra missera skeið háð harða samkeppni við Iceland Express og eflzt af henni, og Iceland Express heldur sínu striki hindrunarlaust til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Flugsamgöngur Íslendinga hafa aldrei verið fjölbreyttari og betri en nú. Sigurður Helgason á vafalítið mikinn þátt í því.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×