Fastir pennar

Færeyjar þurfa sjálfstæði

Sterkustu rökin í sjálfstæðisbaráttu Íslands voru efnahagsrök: þau voru hryggjarstykkið í baráttu Jóns Sigurðssonar við dönsku nýlendustjórnina og þeirra manna, sem stóðu við hlið hans og studdu hann, og einnig hinna, sem tóku upp merki Jóns forseta að honum látnum. Rökin voru þessi: sjálfs er höndin hollust. Danmörk er of langt í burtu, sögðu þessir menn, og það er Dönum þess vegna um megn að lyfta því Grettistaki, sem þarf til að hefja Ísland upp úr fátækt fyrri alda. Það geta engir gert aðrir en Íslendingar sjálfir. Þannig hugsuðu Valtýr Guðmundsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson og þeir aldamótamenn aðrir, sem mest kvað að í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Reynslan hefur sýnt, að þeir höfðu á réttu að standa. Sjálfstæðisbarátta Færeyinga tók aðra stefnu á 20. öld. Annar tveggja helztu stjórnmálaflokka eyjanna, Sambandsflokkurinn, barðist og berst enn gegn sjálfstæði Færeyja. Sambandsmenn telja, að Færeyjum sé bezt borgið í óbreyttu ríkjasambandi við Danmörku. Það er ekki sízt þeirra verk, Sambandsmanna, að Færeyingar hafa ánetjazt fjárhagsaðstoð Dana - aðstoð, sem átti mikinn þátt í að steypa færeysku efnahagslífi í djúpa kreppu 1989-1994. Aðrir hafa óskað eftir auknu sjálfstæði, og þeim hefur vaxið ásmegin undangengin ár. En Danir taka sjálfstæðiskröfurnar ekki alvarlega, og þeir hafa það fyrir sér, að færeyska þjóðin er enn sem fyrr þverklofin í afstöðu sinni til málsins. Núverandi fyrirkomulag ríkjasambandsins milli Danmerkur og Færeyja meinar Færeyingum að gerast aðilar að alþjóðasamtökum á eigin spýtur. Þetta er skiljanlegt, úr því að Færeyjar eru hluti danska konungdæmisins. Ýmsum Færeyingum hefur að undanförnu þótt það heldur lakara að geta ekki á eigin vegum gengið t.d. í Sameinuðu þjóðirnar til jafns við ýmis önnur fámenn eyríki víðs vegar um heiminn. Færeyingum hefur þó ekki fundizt breyting á þessu fyrirkomulagi vera knýjandi, þar eð aðild Færeyja að SÞ myndi ekki breyta miklu um afkomu eyjanna, a.m.k. ekki í bráð. En bíðum við. Núverandi fyrirkomulag ríkjasambandsins meinar Færeyingum með líku lagi að ganga inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, enda þótt Færeyjar gætu verið í Evrópusambandinu eins og Danmörk. Þetta er stórmál, úr því að reynslan sýnir, að EES-samningurinn hefur skipt sköpum fyrir Íslendinga síðan 1994. EES-samningurinn er höfuðuppspretta þeirrar uppsveiflu, sem hefur riðið yfir íslenzkt efnahagslíf undangenginn áratug. Það kostar Færeyinga mikið fé að eiga ekki kost á að fylgja dæmi Íslendinga og gerast aðilar að samningnum með öllu því hagræði, sem í því felst. Málið þolir í rauninni ekki öllu lengri bið, eins og allt er í pottinn búið. Færeyingar þurfa því sjálfstæði, án frekari tafar - af fjárhagsástæðum. Setjum nú svo, að meiri hluti Færeyinga fallist á þetta sjónarmið. Hvað gera Danir þá? Þeir ættu að réttu lagi að sjá sér hag í að koma til móts við sjálfstæðisóskir Færeyinga. Með því að hætta að flækjast fyrir myndu Danir hjálpa Færeyingum að standa á eigin fótum, án styrkja. Þetta er grundvallaratriði. Æ fleiri Færeyingar gera sér grein fyrir því, að þeir geta ekki verið þekktir fyrir að halda áfram að þiggja fjárhagsaðstoð af Dönum: þeir skilja, að Danir ættu heldur að styðja fátæk þriðjaheimslönd til sjálfshjálpar. Árlegt fjárframlag Danmerkur til Færeyja hefur numið 10% af landsframleiðslu Færeyinga undangengin ár, og þeir þurfa því að vera vel í stakk búnir til að mæta svo miklum fjármissi. Danir ættu því að greiða götu Færeyja inn á Evrópska efnahagssvæðið í stað þess að vera þeim Þrándur í Götu. Einn hópur manna mun trúlega berjast gegn þessari lausn málsins og þá um leið gegn sjálfstæði Færeyja: færeyskir útvegsmenn. Þeir hafa haft tögl og hagldir í efnahagslífi landsins um langt skeið. Vandi þeirra er þessi: ef færeyskt efnahagslíf vex og dafnar, þá minnkar hlutdeild sjávarútvegsins í atvinnulífinu, af því að fiskurinn í sjónum er föst stærð. Ör hagvöxtur í krafti aðildar að EES mun smám saman svipta þá völdum eins og raunin hefur orðið á Íslandi. Enginn hefur þó tekið undir fráleitar hugmyndir þess efnis, að Íslendingar hugleiði nú að segja EES-samningnum upp, ekki einu sinni LÍÚ.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×