Fastir pennar

Heimsátak gegn ofbeldi á konum

Í gær hófst átak á heimsvísu gegn ofbeldi gagnvart konum , einkum þó í þróunarlöndum. Hér á landi eru það UNIFEM á Íslandi og Kvennathvarfið sem hafa forgöngu um verkefnið, en mörg önnur samtök koma líka að því. Í ár er yfirskrift átaksins: Heilsa kvenna, heilsa mannkyns: Stöðvum ofbeldið. Það er ekki ofsagt að víða um heim viðgengst enn þann dag í dag ótrúlegt ofbeldi gagnvart konum, sem oftar en ekki á sér rætur í siðum eða trúarbrögðum viðkomandi lands og sem við Vesturlandabúa eigum erfitt með að skilja til fulls. Það er ekki þar með sagt að í vestrænum ríkjum eigi sér ekki líka stað ofbeldi gagnvart konum, en það er kannski með öðrum hætti . Við þurfum Íslendingar reyndar ekki að leita langt til að hafa verið upplýstir um óafsakanlegt ofbeldi, því í vikunni féll þungur dómur yfir manni sem hafði gengið þannig að fyrrverandi sambýliskonu sinni að heppni ein er talin hafa orðið til þess að hún lést ekki.

Í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er greint frá heimilisofbeldi í tíu löndum, sem öll eru utan Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Sem dæmi úr þeirri skýrslu er, að í Eþíópíu er sjö af hverjum tíu konum þar í landi misþyrmt á heimilum sínum og í Japan segja fimmtán prósent kvenna sem spurðar voru að þeim hefði verið misþyrmt á heimilunum. Samskonar fyrri rannsóknir sýna að um fimmtungi kvenna í Svíþjóð , Bandaríkjunum , Bretlandi og Kanada hefur verið misþyrmt á heimilum sínum. Sú ályktun sem einn skýrsluhöfunda dró af þessum niðurstöðum er, að konur séu í meiri hættu heima hjá sér en úti á götu, eins og skýrt var frá hér í Fréttablaðinu í gær. Þetta eru ógnvænlegar upplýsingar, sem á einhvern hátt verður að bregðast við.

Í sumum löndum telja konur að misþyrmingar séu eðlilegur þáttur lífsins, og þarf að verða mikil viðhorfsbreyting til að sigrast á gömlum fordómum og uppræta atferli sem hefur verið landlægt í aldanna rás. Þar er mikið og stórt verkefni fyrir höndum hjá samtökum eins og UNIFEM og fleirum. Á Vesturlöndum snýr málið öðru vísi við, og þarf þarf að viðhafa aðrar aðferðir til að koma í veg fyrir ofbeldi gagnvart konum. Oft er það svo að sambúðarslit verða þess valdandi að fyrrverandi eiginmenn eða sambýlismenn ofsækja fyrrverandi konur sínar. Þar hafa margvíslegar aðferðir verið reyndar,en oft er það svo að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Nálgunarbann hefur stundum borið árangur, en þegar börn eru í spilinu getur verið erfitt að framfylgja því. Það sem er heillavænlegast í þesum efnum er að greina hvert atvik fyrir sig, því svo virðist sem engin ein lausn gildi fyrir alla. Þá hlýtur að koma til álita að hjálpa þeim mönnum sem uppvísir verða að ofbeldi gagnvart fyrrum konum sínum, veita þeim félagslega og sálfræðilega aðstoð til að freista þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi, auk þes sem þeir verða að taka út refsingu samkvæmt lögum og úrskurði dómstóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×