Fastir pennar

Fólk eða fyrirbæri

Nokurra ára gömul minningargrein um látinn baráttumann fyrir betra þjóðfélagi rifjaðist upp fyrir mér um daginn. Í greininni var sagt að hinn látni hefði haft ástríðufullan áhuga á velferð almennings og að hann hefði helgað líf sitt baráttu fyrir auknu réttlæti í samfélaginu. Sá sem skrifaði eftirmælin sagði að barátta þessa manns hefði einkennst af fórnfýsi, skeytingarleysi um eigin hag og einlægri samúð með hinum venjulega manni. Hann bætti því hins vegar því við að þessi látni áhugamaður um manninn hefði verið svo gersamlega áhugalaus um fólk og einstaklinga að það gat valdið honum verulegum erfiðleikum í samskiptum við aðra. Hann mundi til dæmis aldrei nöfn manna og ruglaði oft saman andlitum, nöfnum og misskildum upplýsingum um einstaklinga með hinum óheppilegasta hætti. Það hafði því enga þýðingu að segja þessum áhugamanni um kjör almennings eitt eða neitt um einkahagi einstaklinga. Um þau mál mun hann hafa sagt sjálfur að líf allra manna væri litað af einstaklingsbundnum kjánaskap hvers og eins og á þeim málum hefði hann hreinlega ekki áhuga. Sá sem skrifaði greinina benti á þá undarlegu staðreynd að hinn látni hafði skrifað sínar mörgu og heitu ádeilur á valdníðslu, spillingu og misrétti í samfélaginu án þess að nefna nokkru sinni einn einasta mann á nafn. Þetta var ekki vegna þess að maðurinn vildi tala undir rós eða hefði tilhneigingu til að fara í kringum hlutina. Þvert á móti. Hann var þeirrar skoðunar að umfjöllun um einstaklinga drægi athygli frá kjarna hvers máls. Ráð hans til blaðamannsins sem skrifaði minningargreinina var þetta: Þegar blaðamenn rannsaka mál, sagði hann, eiga þeir umfram allt að gleyma því að fólkið sem kemur við sögu eru einstaklingar eða persónur en muna að þeir eru menn. Menn eru einfaldlega þannig gerðir, sagði hann, að ef þeir hafa sjálfir einhverja hagsmuni af máli er rétt að véfengja fyrirfram allt sem þeir hafa um það að segja. Þetta gleymist stundum, sagði hann, ef menn hugsa um fólk sem persónur. Þessi gamla minningargrein rifjaðist upp fyrir mér í síðustu viku þegar ég fékk að fylgjast með fjölmiðlum í þremur löndum á þremur dögum. Í öllum þessum þremur löndum hefur fjölmiðlun breyst með sama hætti á síðustu árum. Forvitni manna um einkahagi fólks er sinnt til muna meira en áður var. Þar er líka um að ræða eitt helsta einkenni á alþjóðlegri þróun í fjölmiðlun eins og menn þekkja. Þessi þróun virðist raunar vera af tvennum toga. Annars vegar reyna fjölmiðlar að búa til öðru vísi og áhugaverðari mannverur úr fjarlægu fólki með umfjöllun þá frægu. Hins vegar reyna þeir í vaxandi mæli að gera reynslu hinna ofurvenjulegu og nálægu forvitnilega. Á Íslandi er enginn fjarlægur og enginn frægur nema Björk og því snýst málið um að gera manninn í næsta húsi áhugaverðan. Það var hins vegar önnur sérstaða Íslands en fátæklegt úrval af frægu fólki sem olli því að þessi gamla minningargrein rifjaðist upp. Þegar ég bar saman fréttatíma í löndunum þremur kom í ljós að efni fréttanna var ekki að öllu leyti ólíkt ef sleppt var íslenskum fréttum af því tagi sem helst má finna í deyjandi héraðsfréttablöðum í stærri löndum. Stóru innlendu fréttirnar voru um svipaða hluti, ókyrrð á vinnumarkaði, váboða í efnahagslífi, breytingar hjá stórum fyrirtækjum og vandamál í velferðarkerfum. Það var hins vegar eins og varnaðarorð gamla mannsins hefðu verið tekin til greina í tveimur þessara landa en að á Íslandi hefðu menn snúið ráðum hans á hvolf. Í hinum löndunum, Bretlandi og Þýskalandi, var rætt um yfirofandi verkföll án þess að nokkur verkalýðsleiðtogi eða vinnuveitandi kæmi í viðtal, um váboða í efnahagslífi án þess að fjármálaráðherra útskýrði að allt væri í stakasta lagi og um breytingar hjá stórfyrirtækjum án þess að þulir virtust vera að lesa upp tilkynningar frá viðkomandi fyrirtækjum. Fréttamenn drógu fram aðalatriði málsins. Sérfræðingar lögðu mat á stöðu og stefnumál hagsmunaaðila. Afstaða þeirra sem hagsmuna áttu að gæta kom skýrt fram í þessum fréttum en þær voru ekki byggðar upp í kringum ummæli fólks sem helst hafði hag af því að almenningur kæmist að tiltekinni niðurstöðu í málinu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×