Fastir pennar

Of seinir í Símann?

Hlutabréf hafa farið lækkandi undanfarna daga eftir nær stöðugar hækkanir undanfarin tvö ár. Hreyfingar á hlutabréfamarkaði eiga sér jafnan fleiri en eina skýringu. Einn helsti drifkraftur hækkana undanfarna mánuði hafa verið hræringar í eignarhaldi félaga, auk þess sem skráðum félögum hefur fækkað. Það hefur leitt til þess að kostum fjárfesta hefur fækkað sem aftur leiðir til hækkandi verðs þeirra félaga sem skráð eru á markaði. Samhliða hafa miklir peningar verið í umferð og leitað ávöxtunar. Við þessar aðstæður myndast tækifæri fyrir ný félög að skrá sig á markað, auk þess sem félög sem skráð eru á markaði sjá tækifæri í að auka hlutafé sitt með útboði hlutafjár. KB banki hefur þegar aukið hlutafé um ríflega 90 milljarða og má gera ráð fyrir að bróðurpartur þeirra fjármuna sé sóttur á innlendan markað. Fleiri félög hafa séð sér leik á borði og boða nú að nýtt hlutafé verið sótt á markaðinn. Má þar nefna SÍF, Íslandsbanka og Bakkavör. Auk þessa eru væntingar um að ný félög verði skráð á markað á næsta ári. Má þar nefna nýjan flugrisa, Avion, byggðan á flugfélaginu Atlanta og stærstu dagvörukeðju landsins Haga. Leiða má líkur að því að þessar væntingar hafi öðru fremur leitt til þess að markaðurinn lækkar nú. Fjárfestar innleysa hagnað og setja fé á hliðarlínuna til þess að kaupa í komandi hlutafjárútboðum. Fyrir rúmu ári lá fyrir að miklir peningar yrðu í umferð vegna komandi uppsveiflu. Á það var bent að upp væri runninn hentugur tími fyrir ríkið að selja Símann. Síðasta tilraun til sölu Símans mistókst vegna þess að mikil bjartsýni á markaði snerist í andhverfu sína um það leiti sem ríkið lét til skara skríða og hugðist selja. Frá áramótum hefur ríkið boðað útboð vegna ráðgjafar við sölu Símans. Von er á að niðurstaða fáist brátt í þann hluta söluferlisins. Þá er eftir töluverð vinna við að undirbúa söluna. Hættan er auðvitað sú að stjórnvöld vilji sem fyrr eyða orku í að velja kaupendur í stað þess að velja það að selja þeim sem tilbúnir eru til að borga hæsta verðið. Ef almennum ráðleggingum hefði verið fylgt, væri sölu Símans væntanlega nýlokið eða að ljúka. Slík sala hefði temprað hækkanir á eignamörkuðum að undanförnu og dregið úr undirliggjandi þenslu í hagkerfinu. Í stað þess þarfaverks að koma Símanum úr eigu ríkisins eyddi ríkisstjórnin kröftum sínum í fjölmiðlafrumvarp og ástæðulitlar áhyggjur af viðskiptalífinu og þróun þess. Lækkun markaðarins nú sýnir einmitt að viðskiptalífið lagar sig sjálft að breyttu umhverfi og býr sig undir innkomu nýrra aðila á markað. Viðskiptalífið nýtir einnig þau tækifæri sem verða til við skarpa hækkun á markaði. Hægagangur ríkisins við sölu Símans getur hæglega orðið til þess að sagan endurtaki sig. Markaðurinn verði einfaldlega áhugalaus um kaup á því verði sem ríkið telur sig eiga að fá fyrir fyrirtækið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×