Innlent

Móðgun við þá sem skiluðu auðu

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir í leiðara blaðsins í morgun að það sé móðgun við þá 28.000 Íslendinga sem skiluðu auðu í forsetakosningunum að halda því fram að þeir hafi hlýtt einhverju meintu kalli Morgunblaðsins og að þetta sé rýr uppskera blaðsins. Eins og fram er komið hefur Ólafur Ragnar Grímsson sagt að Morgunblaðið hafi unnið markvisst gegn honum í aðdraganda kosninganna. Styrmir segir að Ólafur Ragnar hafi lagt á það mikla áherslu, alveg frá því að fyrstu tölur bárust á laugardagskvöldið, að rangtúlka kosningaúrslitin og vísar þá til þess að þegar Ólafur Ragnar talaði um gild atkvæði hafi hann sleppt auðum seðlum og gefið þannig í skyn að þeir sem skiluð auðu hafi ekki skilað gildum atkvæðum í kjörkassana. Rétt er að taka fram að hingað til hafa auð atkvæði verið flokkuð með ógildum og því ekki verið talin með gildum atkvæðum. Styrmir segir að úrslitin hafi verið áfall fyrir forsetann og að hann standi nú frammi fyrir því erfiða viðfangsefni að ná sátt við þann stóra hlut þjóðarinnar sem er orðinn honum alvarlega andsnúinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×