Innlent

Lýsa vantrausti á yfirstjórn lögreglunnar

Valfrjáls vinnutími, sem tekinn var upp hjá LRH í sumar með öðrum skipulagsbreytingum, hefur valdið mikilli óánægju meðal lögreglumanna.
Valfrjáls vinnutími, sem tekinn var upp hjá LRH í sumar með öðrum skipulagsbreytingum, hefur valdið mikilli óánægju meðal lögreglumanna.

Formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, Arinbjörn Snorrason, hefur lýst því yfir að hann muni ekki sitja fleiri fundi með yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er skipuð í dag. Þetta kom fram á fjölmennum félagsfundi LR í fyrradag.

„Það er alvarlegur trúnaðarbrestur milli yfirstjórnarinnar og lögreglumanna,“ segir Arinbjörn. „Hún nýtur ekki trausts þeirra, þar sem hún hefur ekki staðið við orð sín gagnvart þeim. Stjórn LR hefur ítrekað fengið ábendingar frá félagsmönnum um að draga sig út úr öllum samskiptum við yfirstjórnina.

Svo er þessi agi í stjórnun, sem mönnum ekki hugnast. Þeim er haldið á tánum og gefið í skyn að standi þeir sig ekki verði þeim skipt út fyrir aðra. Við erum allt of fá, með allt of mörg verkefni og verðum samt að klára þau. Þetta snýst um að embættið líti vel út út á við,“ segir hann og bætir við að stjórnunarhættir yfirstjórnarinnar hafi byggt upp spennu sem komi fram í auknum veikindum.

Arinbjörn gagnrýnir nýtt vaktafyrirkomulag lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu sem hann segir lögreglumenn mjög óánægða með. Eftir að það var tekið upp hafi ítrekað komið fyrir að brotið hafi verið samkomulag lögregluembættisins við lögreglufélagið um lágmarksmönnun á vakt. Félagið ætli að leita til lögfræðinga vegna þess brots.

Spurður um í hverju yfirstjórnin hafi ekki staðið við orð sín nefnir Arinbjörn nýlegar ráðningar lögreglumanna. Hann segir lögreglustjóra hafa lýst því yfir að lausráðnir starfsmenn gengju fyrir. Reyndin hefði orðið sú að fjórir lausráðnir lögreglumenn hefðu ekki fengið ráðningu.

jss@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×