Innlent

Flugumferðarstjórar boða til verkfalls

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boða til vinnustöðvunar félagsmanna sinna dagana 10. mars til 19. mars 2010, alls fimm sinnum í fjórar klukkustundir samfellt í hvert skipti. „Félagið leggur þannig áherslu á kröfur sínar í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning, þar sem hvorki gengur né rekur," segir í tilkynningu frá félaginu.

Verkfallsboðunin nær til allra starfandi flugumferðarstjóra hjá Keflavíkurflugvelli ohf. og Flugstoðum ohf.

„Aðalfundur Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) 22. febrúar 2010, samþykkti að fela stjórn og trúnaðarráði félagsins að hefja þegar í stað undirbúning atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls flugumferðarstjóra. Stjórn og trúnaðarráð Félags íslenskra flugumferðarstjóra gerðu tillögu um nokkrar sjálfstæðar fjögurra klukkustunda vinnustöðvanir og voru þær samþykktar einróma í almennri atkvæðagreiðslu 25.-26. febrúar síðastliðinn. Á kjörskrá voru 105 félagsmenn, kjörsókn var 68%."

Þrátt fyrir að flugumferðarstjórum, sem vinna hjá Flugstoðum ohf. og Keflavíkurflugvelli ohf., beri ekki skylda til að sinna neinum störfum í verkfalli hefur FÍF ákveðið að flugumferðarstjórar sinni störfum í boðuðum verkföllum með eftirfarandi hætti:

1. Séð verður til þess að nægilega margir flugumferðarstjórar verði í flugturnum á Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og í flugturni og aðflugi á Keflvíkurflugvelli til að sinna sjúkra- og neyðarflugi á meðan verkfall stendur yfir. Flugumferðarstjórarnir sinna með öðrum orðum eingöngu sjúkra- og neyðarflugi.

2. Veitt verður full þjónusta í úthafssvæðinu, þ.e. flugumferðarstjórar, sem hafa skipulagðar vaktir þessa daga, sinna störfum sínum með venjulegum hætti að því undanskyldu að flugvélar, sem ætla að lenda á íslenskum flugvöllum á meðan verkfall varir, fá ekki heimild til flugs inn á svæðið nema um neyðartilvik eða sjúkraflug sé að ræða. Heimilt er að bæta við flugumferðarstjórum, ef nauðsyn krefur, vegna umferðar í úthafssvæðinu. Þessi undanþága nær eingöngu til starfa flugumferðarstjóra sem sinna flugumferðarstjórn í flugstjórnarmiðstöðinni, þar með talinna varðstjóra og aðalvarðstjóra.

Dagsetningar verkfallsins: 

Verkfall  Dagsetning Vikudagur         Frá - til

1           10.03.2010 miðvikudagur    07:00 - 11:00

2           12.03.2010 föstudagur        07:00 - 11:00

3           15.03.2010 mánudagur        07:00 - 11:00

4           17.03.2010 miðvikudagur     07:00 - 11:00

5           19.03.2010 föstudagur        07:00 - 11:00 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×