Innlent

Borgarstjóri og dómsmálaráðherra hyggjast funda um löggæslumál

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra vegna stöðu löggæslumála.
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra vegna stöðu löggæslumála.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, munu funda í dómsmálaráðuneytinu næsta föstudag, um þörf fyrir aukna löggæslu í miðborginni um helgar.

Í fréttatilkynningu frá borgarstjóra segir að fundurinn sé haldinn af frumkvæði hans í framhaldi af mikilli manneklu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar tvær helgar.

„Samkvæmt heimildum frá lögregluembættinu voru aðeins níu lögregluþjónar á vakt í miðborginni aðfaranótt 6. júlí sl. Tólf lögregluþjónar voru á vakt aðfaranótt 12. júlí og fjórtán aðfaranótt 13. júlí. Til að stuðla að auknu öryggi í miðborginni hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að fá svokallaða miðborgarþjóna til að standa vakt í miðborginni að næturlagi um helgar. Miðborgarþjónarnir eru sex saman á vakt frá klukkan tvö á nóttunni til átta á morgnana. Í byrjun var um að ræða þriggja vikna tilraunaverkefni. Nýlega samþykkti borgarráð að framlengja verkefnið til 15. september nk.," segir í tilkynningu frá borgarstjóra.

Borgarstjóri segist hafa haldið reglubundna fundi með helstu embættismönnum borgarinnar sem tengjast miðborginni, fulltrúum veitingahúsaeigenda, lögreglu, íbúum og miðborgarþjónum undanfarna mánudagsmorgna. Þar sé farið yfir atburði yfir liðna helgi. Á fundunum hafi ítrekað verið vakin athygli á þörf fyrir aukna löggæslu í miðborginni. Í framhaldi af því hafi borgastjóri óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra um málið.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×