Upp­gjör: ÍA-Víkingur 0-1 | Vítaspyrna tryggði meisturunum stigin þrjú

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Helgi Guðjónsson kom til bjargar.
Helgi Guðjónsson kom til bjargar. vísir/Hulda Margrét

Víkingur mætti ÍA á ELKEM vellinum á Akranesi í dag í 8. umferð Bestu deildarinnar. Lauk leiknum með 0-1 sigri Víkings og kom sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Lituðu vallar- og veðuraðstæður leikinn mikið, en hávaða rok var upp á Skaga í dag og var völlurinn þungur í sér eftir miklar rigningar í vikunni.

Víkingar voru án Pablo Punyed og Aron Elís Þrándarsonar í dag, en báðir eru að glíma við léttvæg meiðsli.

Fyrri hálfleikurinn var afskaplega rólegur og áttu Íslandsmeistarar Víkings erfitt með að byggja upp sóknir. Heimamenn fengu lítið að snerta boltann, en þeir spiluðu í mótvindi í fyrri hálfleik.

Besta færi fyrri hálfleiks kom eftir skot Helga Guðjónssonar úr miðjum teig heimamanna sem Árni Marinó Einarsson náði að verja. Boltinn féll fyrir fætur Danijel Dejan Djuric í framhaldinu en Árni Marinó náði að kasta sér fyrir skot hans einnig. Staðan markalaus í hálfleik.

Eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleik var vítaspyrna dæmd. Marko Vardic togaði þá Danijel Dejan Djuric niður í markteig Skagamanna, en Danijel var við það að skjóta boltanum í átt að marki af stuttu færi. Danijel virtist fara nokkuð auðveldlega niður, en víst að vítið var dæmt þá varð Marko Vardic að fara af velli, sem og hann gerði, þar sem hann reyndi ekki að leika boltanum í þessu dauðafæri Víkinga.

Helgi Guðjónsson fór á punktinn og þrumaði boltanum upp í þaknetið. Öruggt víti.

Víkingar bitu lítið frá sér eftir þetta þrátt fyrir að vera einum manni fleiri. Skagamenn áttu einnig í erfiðleikum með að sækja fram völlinn í hvassviðrinu, einum manni færri.

Skagamenn reyndu þó hvað þeir gátu á lokamínútunum, en það mesta sem kom út úr því var skalli í slá í uppbótatíma.

Lokatölur, líkt og fyrr segir, 0-1 Víkingi í vil, sem styrkir jafnframt stöðu sína á toppi deildarinnar með sigrinum.

Atvik leiksins

Vítaspyrnudómurinn var það sem þessi leikur snerist um að lokum. Danijel Dejan Djuric fór nokkuð auðveldlega niður í atvikinu, eða eins og Arnar Gunnlaugsson sagði um atvikið eftir leikinn „þetta var svona frekar soft víti.“ 

Skagamenn voru ekki sáttir og fékk Danijel Dejan Djuric að heyra það á meðan leik stóð sem og eftir leik. Danijel var sakaður hreinlega um að svindla ásamt öðrum fúkyrðum þegar hann kom sér fyrir í viðtali hjá blaðamanni eftir leik.

Stjörnur og skúrkar

Gísli Gottskálk Þórðarson, miðjumaður Víkinga, stóð sig hvað best í leiknum. Þrátt fyrir ungan aldur höndlaði hann hvað best að spila í þeim erfiðu aðstæðum sem voru í dag. Flest allt uppspil Víkings sem bar einhvern ávöxt kom Gísli að.

Marko Vardic er skúrkurinn. Jú jú þetta var kannski „soft“ víti en ótrúlega klaufalegt að bjóða upp á þetta í þessari stöðu, vitandi að rauða spjaldið gæti farið á loft.

Dómarar

Erlendur Eiríksson hafði fín tök á leiknum heilt yfir. Það er þó spurning hvort vítadómurinn hafi verið réttur. Einnig kölluðu Skagamenn nokkru sinnum eftir víti í síðari hálfleik, en ég held að Erlendur og hans teymi hafi komist að réttri niðurstöðu í þeim atvikum.

Stemning og umgjörð

348 mættir á þennan leik þrátt fyrir vindasamt veður. Partýtjald ÍA stóð af sér vindinn í dag, en þar gat fólk fengið sér mjöð og graðkað í sig flatbökum og borgurum. Stuðningsmenn ÍA létu vel í sér heyra þegar þeim fannst brotið á þeim, og þá sérstaklega í atviki leiksins.

„Það voru ofboðslega erfiðar aðstæður“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.Vísir/Hulda Margrét

Hvert var mat Jón Þórs Haukssonar, þjálfara ÍA, á vítinu sem dæmt var í leiknum?

„Vítaspyrnan náttúrulega ræður úrslitum í leiknum, ekki bara það að fá á okkur mark í þessu atviki heldur missa mann út af. Það er auðvitað lykilatvik í leiknum og það er ofboðslega fúlt og svekkjandi að vera á röngum enda í þeim ákvörðunum. Ég hef ekki séð það aftur og treysti því að þetta sé bara allt hárrétt hjá þessum mönnum.“

Aðspurður hvort það hafi einnig verið hárrétt hjá dómurum leiksins að dæma ekki víti í þau tvö skipti sem Skagamenn kölluðu eftir víti í leiknum, þá hafði Jón Þór þetta að segja.

„Ég gæti verið búinn að standa hérna eftir hvern einasta leik, ég bara nenni þessu ekki. Ég veit ekkert um það og þið verðið bara að dæma um það.“

Jón Þór var sáttur með frammistöðu síns liðs í dag þrátt fyrir að lítið af því sem var sett upp fyrir leikinn hafi gengið eftir.

„Það voru ofboðslega erfiðar aðstæður í fyrri hálfleiknum. Við vorum að spila á móti vindinum og áttum í ofboðslegum erfiðleikum með byggja upp einhverjar sóknir eða láta boltann ganga á milli manna. Við vorum búnir að tala um það fyrir leikinn að þegar við vinnum boltann að þá væru svæði og leiðir til að spila okkur út úr því. Það náttúrulega fór bara út um gluggann í, sérstaklega, fyrri hálfleiknum. Það sem við ætluðum okkur svo að gera með vindinum í síðari hálfleik fer út um gluggann strax í upphafi. Mér finnst við bregðast mjög vel við rauða spjaldinu og vítinu. Við setjum pressu á þá og reynum að skapa okkur móment til þess að koma okkur aftur inn í leikinn. Við vorum nálægt því nokkrum sinnum en því miður gekk það ekki upp.“

Hvað vantaði upp á hjá ÍA til að ná inn marki í leikinn?

„Ég hefði viljað sjá okkur komast í betri skotsénsa, en við vorum bara að reyna að taka móment til þess að skapa okkur færi í þessu, koma boltanum upp völlinn og fá boltann inn í vítateiginn. Þeir áttu erfitt með að verjast því. Mér fannst strákarnir bara díla vel við það að spila einum færri,“ sagði Jón Þór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira