Japan hirti efsta sætið af Spáni og skildi Þjóð­verja eftir með sárt ennið

Fögnuður Japana í leikslok var ósvikinn.
Fögnuður Japana í leikslok var ósvikinn. Vísir/Getty

Japan tryggði sér efsta sætið í E-riðli heimsmeistaramótsins með mögnuðum 2-1 sigri á Spánverjum í kvöld. Japan endar því með sex stig í efsta sæti en Spánn fer einnig áfram með jafn mörg stig og Þjóðverjar en betri markatölu.

Alvaro Morata kom Spáni yfir á 11.mínútu og þar sem Þjóðverjar komust í 1-0 á nánast sama tíma þá voru þessar tvær stórþjóðir báðar á leið áfram í 16-liða úrslit. Það átti þó margt eftir að gerast eftir þetta, staðan í hálfleik var 1-0.

Japanir mættu gríðarlega öflugir til leiks í síðari hálfleik. Á 48.mínútu skoraði Ritsu Doan fyrir Japan og jafnaði metin í 1-1 en hann hafði komið inn sem varamaður í hálfleik.

Þremur mínútum síðar gerðist svo umdeilt atvik. Boltinn barst þá fyrir mark Þjóðverja þar sem Japanir náðu honum á fjærstönginni og komu aftur fyrir markið. Ao Tonaka kom þar boltanum í netið en VAR skoðaði atvikið og hvort boltinn hefði verið kominn afturfyrir endamörk áður en Japan skoraði.

Við fyrstu endursýningu virtist svo vera en að lokum fékk markið að standa og Japan fagnaði. Afar umdeilt og risastór ákvörðun.

Það sem eftir var leiks var nánast spilað á eitt mark en Spánn skapaði sér þó fá opin færi. Þjóðverjar biðu með öndina í hálsinum því jafntefli hefði þýtt að þeir hefðu farið áfram.

Lokatölur urðu 2-1 fyrir Japan sem þar með hirti efsta sætið af Spánverjum. 

Þeir spænsku tóku áhættu fyrir leikinn, gerðu fimm breytingar á byrjunarliðinu og það borgaði sig ekki. 7-0 sigur Spánverja á Kosta Ríka í fyrstu umferð riðlakeppninnar reyndist þeim afar dýrmætur því það gaf þeim yfirburðamarkatölu í riðlinum og reið baggamuninn að lokum.

Spánn mun mæta Marokkó í 16-liða úrslitum en Japanir mæta Króötum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira