Neytendur

Segjast taka á­bendingum al­var­lega og hafa verð­lagningu til skoðunar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þýska fyrirtækið Heinemann rekur Ísland Duty Free.
Þýska fyrirtækið Heinemann rekur Ísland Duty Free. Vísir

Rekstraraðili fríhafnarverslana í Keflavík, Ísland Duty Free, hafa verðlangingu á áfengi í verslunum félagsins í Keflavík til skoðunar í framhaldi af umfjöllun um verðlag. Ábendingunum sé tekið alvarlega og hyggst fyrirtækið skoða sérstaklega verðlagningu þeirra vara sem reynast dýrari í fríhöfninni en í verslunum innanlands. Vísir greindi í morgun frá úttekt Félags atvinnurekenda sem meðal annars leiddi í ljós að áfengi í fríhöfninni í Keflavík sé allt að 81% dýrara en í fríhafnarverslunum á vegum sama fyrirtækis annars staðar í Evrópu.

Fyrirtækið Heinemann, sem rekur verslanirnar, baðst undan beiðni fréttastofu um viðtal vegna málsins en bendir á að „afar fáar“ vörutegundir af þeim þúsundum sem þar séu til sölu hafi verið til umfjöllunar. Þar að auki sé verð í flugvallarverslunum á ólíkum mörkuðum ekki alltaf samanburðarhæf.

Þetta kemur fram í svari Ísland Duty Free til fréttastofu í framhaldi af umfjöllun um málið. Meðal þess sem verðsamanburður Félags atvinnurekenda leiddi í ljós, og Vísir greindi frá fyrr í dag, er að gríðarlegur verðmunur sé á áfengi sem Heinemann selur í fríhafnarverslunum sínum í Frankfurt og Kaupmannahafnar annars vegar og í Keflavík hins vegar. Teknar voru fyrir nokkrar vörutegundur sem í öllum tilfellum voru umtalsvert dýrari í Keflavík en í hinum evrópsku borgunum. Sömuleiðis séu dæmi um að áfengi í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli sé dýrara en í verslunum Vínbúðarinnar innanlands, þrátt fyrir tollfrelsi í fríhöfninni.

Ekki alltaf samanburðarhæft en ætla að bregðast við ábendingum

„Ísland Duty Free skoðar nú þau atriði sem komið hafa fram í umfjöllun um verðlagningu á áfengi í verslunum félagsins í Keflavík. Ljóst er að verð í flugvallarverslunum á mismunandi mörkuðum eru ekki alltaf samanburðarhæf, þar sem gjöld, launakostnaður og aðrir þættir hafa áhrif á endanlegt verð til viðskiptavina,” segir meðal annars í svari fyrirtækisins til fréttastofu.

„Varðandi verðsamanburð innanlands þá tekur þessi umfjöllun til afar fárra vörunúmera af þeim þúsundum vara sem Ísland Duty Free er með í sölu í verslunum sínum. Félagið tekur þessum ábendingum engu að síður alvarlega og mun skoða sérstaklega þær vörur sem um ræðir. Ísland Duty Free er með mikinn fjölda vörutegunda á samkeppnishæfum verðum og hyggst halda áfram að bjóða viðskiptavinum sínum gæða vörur á góðu verði,“ segir ennfremur í svarinu frá talsmönnum Heinemann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×