Upp­gjör: KR-Vestri 2-2 | Vestur­bæingar geta ekki unnið á Meistara­völlum

Ólafur Þór Jónsson skrifar
Guy Smit gaf Vestra leið inn í leikinn.
Guy Smit gaf Vestra leið inn í leikinn. Vísir/Anton Brink

KR tók á móti Vestfirðingum í Vestra er liðin mættust í Bestu deild karla. Fyrir leikinn hafði Vestri tapað fjórum leikjum í röð, þremur í deild og einum í bikar. KR aftur á móti að koma út góðum sigri á FH. 

Þrátt fyrir það hafði KR ekki unnið leik á sínum heimavelli á tímabilinu og því til mikils að vinna.

Vestri hóf leikinn að krafti en eftir átta mínútna leik skoraði KR fyrsta mark leiksins, það var Benóný Breki eftir frábæran undirbúning hjá Aroni Sig. Eftir þetta tóku heimamenn algjörlega stjórnina á leiknum.

Eftir 40 mínútna leik fékk Theodór Elmar boltann á vinstri kanti KR, lék á varnarmann Vestra og átti svo stórkostlega fyrirgjöf á Benóný Breka sem skallar boltann einstaklega snoturt í netið. Staðan 2-0 og KR með tögl og haldir á leiknum.

Seinni hálfleikurinn var síðan algjör viðsnúningur. Vestri skoraði tvö mörk með stuttu millibili um miðbik seinni hálfleiksins. Það fyrra kom úr vítaspyrnu þar sem Vladimir Tufegdiz skoraði. Það kom eftir enn ein mistök Guy Smit sem braut á Silas Songani sem var að komast framhjá honum.

Annað mark Vestra var einkar glæsilegt. Það kom eftir hornspyrnu Vestra sem Tufa skallar niður í teiginn og er það er Pétur Bjarnason sem skorar með hælnum. Á einu augabragði var staðan jöfn og allt undir.

Niðurstaðan 2-2 jafntefli. KRingar geta verið sársvekktir eftir leikinn en liðið hafði stjórn á leiknum lungann af honum. Vestri aftur á móti sýndi karakter að koma til baka og jafna þrátt fyrir yfirburði KR.

Atvik leiksins

KR virtist algjörlega vera með leikinn á 67 mínútu þegar Silas Songani komst inn fyrir vörn KR og var að komast framhjá Guy Smit í markinu þegar hann brýtur á honum og fær víti á sig. Tufa skoraði örugglega úr vítinu. 

Þetta eru ekki fyrstu mistök Smit á tímabilinu en hann hefur gefið þau nokkur mörkin og gert nokkur mistök. Smit var kannski engin greiði gerður að vera kominn í þessa stöðu en þetta var einkar klaufalegt. 

Í framhaldi af þessu tók Ryder þjálfari KR þá Theodór Elmar og Aron Sig útaf sem höfðu verið bestu leikmenn KR. Við það datt botninn úr sóknarleik KR og Vestri skorar stuttu seinna. Afdrifaríkar mínútur hjá KR.

Stjörnur og skúrkar

Benóný Breki Andrésson var að sjálfsögðu maður leiksins. Tvö frábær mörk og alltaf hætta í kringum hann. Benóný virðist vera búinn að finna taktinn eftir meiðslin sem hann varð fyrir í vetur. Það á eftir að reynast mikilvægt í deildinni og gæti í raun breytt öllu fyrir KR. Einnig ber að nefna þá Aron Sigurðarson og Theodór Elmar Bjarnason sem voru gríðarlega öflugir saman vinstra megin á vellinum.

Hjá Vestra var Vladimir Tufegdzic frábær. Hann var allt í öllu í mörkum Vestra, skoraði úr vítinu og lagði upp annað markið. Pétur Bjarnason var svo iðinn að gera varnarmönnum KR erfitt fyrir.

Dómarinn

Ívar Orri Kristjánsson var með allt í teskeið í dag. Leikurinn fékk að fljóta vel og allar stóru ákvarðanirnar voru hárréttar. 9/10

Stemning og umgjörð

Það voru mjög fínar aðstæður til knattspyrnu í vesturbæ Reykjavíkur í dag. Sólríkt og fallegt en völlurinn ekki í frábæru standi. Þó miklu betra en í síðustu leikjum og ekki langt í að hann verði fullkominn. Umgjörð KR var virkilega góð að vanda og mætingin bærileg.

„Búnir að ferðast um 30.000 kílómetra á árinu“

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra.Vísir/Diego

Vestri átti gríðarlega sterka endurkomu á Meistaravöllum í dag þegar liðið mætti KR í Bestu deildinni. KR komst í 2-0 í fyrri hálfleik en náðu að snúa leiknum í jafntefli 2-2 með mörkum í seinni hálfleik.

„Sýnum þvílíkan karakter að koma til baka. Það er ekki auðvelt að koma til baka 2-0 á þessum KR velli. Sáttur við það en samt líka svekktur að hafa ekki klárað þetta,“ sagði Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra eftir leik.

Davíð sagði í viðtali fyrir leik að liðið þyrfti að gera betur í grunnatriðum varnarleiks í dag. KR skoraði mjög ódýrt mark eftir átta mínútna leik, ekki í anda þessara orða Davíðs.

„Gríðarlega svekkjandi því þetta var nákvæmlega það sem við fórum yfir fyrir leikinn. Hvernig þeir tvímenna svona á okkur á víddinni. Það er oft þannig með lið á móti okkur að við erum með það í hausnum að við séum að leka mörkum. Þá þora bakverðirnir okkar illa að stíga upp og hjálpa til með sóknarleiknum.“

„Við fórum vel yfir það í hálfleik og mér fannst annað lið koma til leiks í seinni hálfleik. Við vorum að setja KR í fullt af vandræðum. Þetta var ekki fullkominn leikur en heilt yfir fannst mér við vera betra lið ef ég á að vera hreinskilinn.“ sagði Davíð Smári og bætti við um frammistöðuna í seinni hálfleik:

„Fórum hátt upp með bakverðina okkar og ætluðum að spyrja þá nokkra spurninga varnarlega. Mér fannst við gera það. Komum út kraftmiklir og áttum auðveldara með að overloada þá útá víddinni. Flott mörk sem við skorum og mikill kraftur í liðinu mínu.“

Vestri hefur enn ekki leikið heimaleik á árinu í neinni keppni og hefur það tekið nokkurn toll af liðinu samkvæmt Davíð.

„Það er búið að vera mikið álag á liðinu mínu. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því að Vestraliðið er búið að ferðast einhverja 30 þúsund kílómetra síðan í janúar og ekki spilað einn heimaleik. Mikill akstur og keyrsla á liðinu. Að geta komið hér í seinni hálfleik og sprengt þetta KR lið upp með krafti, þor, dugnaði og hugrekki er eitthvað sem ég er mjög sáttur við. Gott veganesti inní framhaldið.“

Vestri hafði fyrir leik dagsins tapað þremur leikjum í röð og þurftu því á úrslitum að halda.

„Það er alltaf gott að finna fyrir því að við getum komið til baka og við höfum trú allt til enda. Vissum svosem alveg fyrir leikinn að þett yrði svolítill barningur. Við erum á erfiðum velli, smá vindur og það var ekki auðvelt að spila góðan fótbolta á vellinum. Það voru ekki mikil gæði í þessum leik en heilt yfir er ég svekktur að ná ekki að vinna leikinn. Fannst við betri í leiknum.“ sagði Davíð að lokum.


Tengdar fréttir

„Slökkvum bara á okkur“

KR gerði 2-2 jafntefli við Vestra í 8. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Heimamenn í KR voru komnir í 2-0 stöðu í fyrri hálfleik en gestirnir skoruðu tvö mörk á stuttum kafla í seinni hálfleik og niðurstaðan 2-2 jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira