Upp­gjör, við­töl og myndir: Kefla­vík-Njarð­vík 72-56 | Kefla­vík Ís­lands­meistari 2024

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Íslandsmeistarar.
Íslandsmeistarar. Vísir/Diego

Keflvíkingar voru í kjörstöðu til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Subway-deild kvenna í kvöld og sópa þar með Njarðvíkingum í hverru einustu viðureign liðanna og sú varð raunin að lokum.

Lokatölur kvöldsins 72-56 og því miður má segja að Njarðvík hafi í raun aldrei verið líklegt til að fara með sigur af hólmi og setja smá spennu í einvígið.

Leikurinn fór hratt af stað, bæði lið að spila góða sókn en minna um varnir. Töluvert um mistök og tapaða bolta og Keflvíkingar fóru illa með nokkur galopin færi sem þýddi að Njarðvíkingar leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 19-22.

Selena Lott sækir að körfunni af hörkuVísir/Pawel

Heimakonur skoruðu svo fyrstu sjö stig 2. leikhluta og Rúnar Ingi varð að taka leikhlé til að stoppa blæðinguna. Það skilaði þó litlu og fljótlega þurfti hann að brenna annað leikhlé en Keflavík var búið að taka 13-2 áhlaup á fyrstu sex mínútum leikhlutans. Keflvíkingar lokuðu leikhlutanum með stífri pressu, Jana tapaði boltanum í tvígang og Keflavík leiddi í hálfleik 39-31.

Sara Rún skilaði 22 stigum í kvöld og var valin mikilvægasti leikmaður úrslitannaVísir/Pawel

Njarðvíkingar reyndu að splæsa í áhlaup og endurkomu en voru einfaldlega ekki mjög sannfærandi. Trúin virtist hreinlega vera horfin og Keflvíkingar gengu á lagið. Jafnvel þó að munurinn væri aldrei mikill og Njarðvíkingar næðu stundum að minnka hann voru þær aldrei líklegar til að fara alla leið.

Munurinn tólf stig fyrir lokaleikhlutann sem Keflvíkingar opnuðu með tveimur þristum og þar með var leikurinn eiginlega búinn þó svo að rúmar átta mínútur væru eftir af honum. Eftir það fjaraði leikurinn í raun út og sigur Keflavíkur staðreynd löngu áður en flautað var til leiksloka.

Atvik leiksins

Í upphafi 4. leikhluta, í stöðunni 58-46, settu þær Anna Lára Vignisdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir sitt hvorn þristinn, komu muninn upp í 15 stig úr átta og virtist það í raun gera út um leikinn og vonir Njarðvíkinga þó svo að enn væru rúmar átta mínútur eftir af leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Daniela Wallen var frábær í kvöldVísir/Pawel

Daniella Wallen frábær í kvöld, 22 stig, níu fráköst og NÍU stolnir boltar. Sara Rún sömuleiðis með 22 stig og þá skilaði Elisa Pinzan tólf stoðsendingum og átta fráköstum. Sara var í leikslok valin mikilvægasti leikmaður úrslitanna og er vel að þeim titli komin.

Emilie Hesseldal reyndi sitt besta en það dugði ekki tilVísir/Pawel

Hjá Njarðvík reyndi Selena Lott hvað hún gat að koma gestunum aftur inn í leikinn, 21 stig og 13 fráköst þar. Emilie Hessedal skilaði 16 stigum en flestir aðrir leikmenn Njarðvíkur drógu sig djúpt inn í skelina í kvöld.

Dómarar

Dómarar kvöldsins ráða ráðum sínumVísir/Pawel

Dómarar kvöldsins voru Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson. Frábærir í kvöld. Enginn leikmaður að væla eða tuða. Allt upp á tíu á þeim bænum.

Stemming og umgjörð

Stappað í stúkunniVísir/Pawel

Frábær mæting í Keflavík í kvöld og allt orðið fullt löngu fyrir leik enda búið að keyra stemminguna í gang á „fan zone“ fyrir leik þar sem Herra Hnetusmjör lék fyrir dansi.

Stemmingin í troðfullu húsi í Blue höllinni frábær í kvöld en hugur minn er hjá húsvörðunum sem verða væntanlega að þrífa upp „confetti“ rusl langt fram eftir vikunni.

Keflvíkingar fagna ÍslandsmeistaratitilinumVísir/Pawel

Viðtöl

Sverrir Þór: „Liðið okkar var bara hrikalega andlega sterkt“

Sverrir Þór var einbeittur á hliðarlínunni í kvöldVísir/Pawel

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var helsáttur með leik sinna kvenna í kvöld, en það var engu líkara en þær næðu hreinlega heljartök á leiknum eftir fyrsta leikhluta.

„Það var bara þannig. Hugarfarið og einbeitingin hún var bara rosaleg hjá okkur.“

Keflvíkingar virtust vinna andlega stríðið í þessu einvígi en Sverrir nefndi andlegu hliðina sérstaklega.

„Við erum náttúrulega búnar að vinna þær í öllum leikjum og svo tapa þær fyrsta leiknum. Liðið okkar var bara hrikalega andlega sterkt og það er bara hlutur sem maður er búinn að leggja upp með í allan vetur. Enga helvítis fýlu og „bullshit“. Ég er fljótur að taka á svoleiðis ef það poppar upp. Það er bara ekki í boði þar sem að ég er að þjálfa.“

Allir og amma þeirra eru búnir að tala lið Keflavíkur upp til skýjanna í vetur og pressan á liðinu verið töluverð. Sverrir sagði að hann hefði reynt sitt besta til að halda pressunni frá leikmönnum en hún hefði þó aðeins sagt til sín í undanúrslitunum.

„Klárlega á móti Stjörnunni. Ég er búinn að vera að segja við þær, ég er ábyrgur fyrir liðinu, ég er með pressuna. Ég á að vera með pressuna því ég var fenginn til að taka við þessu hörkuliði. Þær þurfa bara að leggja sig fram og það er ég sem er þá ábyrgur ef við vinnum ekki.“

Ena Viso: „Fannst svolítið eins og allt félli með þeim í gegnum alla seríuna“

Ena Viso sækir á fleygiferðVísir/Pawel

Ena Viso, fyrirliði Njarðvíkur, var virkilega ósátt í leikslok og sagði bæði leikinn og seríuna alla hafa verið gríðarleg vonbrigði.

„Ég er algjörlega eyðilögð. Þetta er alls ekki sú útkoma sem ég reiknaði með fyrirfram og ekki sú frammistaða sem við lögðum upp með. Þetta eru risastór vonbrigði.“

Aðspurð um hvort útkoman í fyrsta leiknum hefði breytt gangi seríunnar sagði Ena að sigur þar hefði án vafa breytt miklu, en Njarðvík tapaði þeim leik eftir tvær framlengingar.

„Ég held að við hefðum tekið fyrsta leikinn hér, eftir tvær erfiðar framlengingar, að það hefði breytt taktinum í einvíginu. Að spila leik tvö á okkar heimavelli með sigur í farteskinu hefði verið allt annar leikur. En mér fannst svolítið eins og allt félli með þeim í gegnum alla seríuna. Örlítil heppni hefði hjálpað okkur en lukkan var bara ekki á okkar bandi að þessu sinni. Mér fannst þetta í raun vera brekka frá fyrstu mínútu.“

Njarðvík byrjaði leikinn í kvöld ágætlega en Ena sagði að þær hefðu engu að síður þurft að hafa mjög mikið fyrir sókninni og það hefði dregið mjög úr þeim þróttinn að fá ítrekað auðveldar körfur í bakið.

„Það var mjög erfitt að verjast þeim þegar þær sóttu hratt og ég er eiginlega ekki ennþá búinn að átta mig fyllilega á hvað er í gangi þegar þær sækja hratt. Það útheimtir mikla orku af okkar hálfu að ná góðum sóknum gegn þeim og þegar þær fá svo auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum þá er það eins og að fá rýting í hjartað því þær virðast ekki þurfa að hafa neitt fyrir sókninni meðan við þurfum að leggja allt í það að fá góð skot.“

„Mér finnst líka eins og síðasta mánuðinn eða svo hafi þriggjastiga nýtingin okkar horfið. Þetta hafa verið múrsteinar á múrsteina ofan, sem er algjörlega öfugt við það sem á undan var komið.“

Ena viðurkenndi að það freistaði vissulega að ná fram hefndum gegn Keflavík að ári en framtíð hennar í körfubolta væri algjörlega óráðin.

„Ég myndi gjarnan vilja ná fram hefndum! En ég ætla aðeins að sjá hvað tíminn leiðir í ljós og hvernig málin þróast hjá Njarðvík. Ég veit að það eru breytingar í farvatninu hjá félaginu, en ég hef virkilega notið þess að spila á Íslandi. Deildin er sterk og ég er virkilega ánægð með að hafa stokkið á tækifærið að spila hérna. Ég ætla ekki að útiloka neitt, við sjáum til hvernig málin þróast.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira