Innlent

Tók hundrað sígarettukarton og sleppti því að borga

Jón Þór Stefánsson skrifar
Kartonin voru í fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Kartonin voru í fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hlaut í dag níutíu daga fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir að stela tæplega hundrað kartonum af sígarettum í fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Í ákæru kemur fram að brot mannsins hafi átt sér stað á nokkurra daga tímabili, frá áttunda febrúar á síðasta ári til ellefta febrúar sama árs.

Honum var gefið að sök að hafa tekið ófrjálsri hendi 95 karton af sígarettum og gengið með þau út án þess að greiða fyrir þau.

Í ákærunni segir að verðmæti sígarettukartonanna hljóði upp á 770 þúsund krónur. Flugstöðin krafðist bóta fyrir sömu upphæð.

Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn, mætti ekki fyrir dóm og var fjarvera hans metin til jafns við játningu. Líkt og áður segir var maðurinn sakfelldur og hlýtur 90 daga fangelsisdóm.

Þá er honum gert að greiða fríhöfninni annars vegar 770 þúsund krónur fyrir kartoninn, og hins vegar hundrað þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×