Erlent

Létust í snjó­flóði á skíðum í Ölpunum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Snjóflóðið féll nærri hlíðum Mont Blanc-fjalls í Frakklandi.
Snjóflóðið féll nærri hlíðum Mont Blanc-fjalls í Frakklandi. Getty/Andia

Bresk kona og sonur hennar eru sögð hafa látist í frönsku Ölpunum þegar snjóflóð féll við Mont Blanc.

Þau voru hluti af hópi sem var á skíðum langt út fyrir tilætlaðar skíðabrekkur ásamt fararstjóra þegar 400 metra breitt snjóflóð féll á um 2300 metra hæð skammt frá skíðabænum Saint-Gervais-les-Bains í Haute-Savoie héraði á miðvikudag.

Grófst en komst lífs af

Guardian greinir frá því að þriðji aðilinn hafi grafist í fönn í snjóflóðinu en að hann hafi borið staðsetningartæki og því fundist fljótt. Hann hlaut væga áverka. Fimm öðrum tókst að komast undan flóðinu, þar á meðal eiginmaður og faðir hinnar látnu.

Lögreglan á svæðinu segir að snjóflóðinu hafi verið hrundið af stað af hópi skíðamanna sem var ofar í brekkunni.

Alltaf áhætta

Jean-Luc Boch, forseti félags bæjarstjóra skíðaáfangastaða í Frakklandi segir í viðtali við FrenchInfo að það sé aldrei alveg hættulaust að skíða utan tilætlaðra brekka.

„Það er alltaf áhætta þegar maður skíðar utan brekka. Það er áhætta meira að segja ef maður fer í fylgd fagmanna, fararstjóra, skíðakennara. Það er alltaf yfirvofandi hætta. Það má ekki gleyma því að uppi á fjöllum verður að hafa öryggi efst í huga. Fjöllin, eins og hafið, eru alltaf máttugri en við,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×