Innlent

Mjög ó­sátt við sam­göngur í Eyjum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja. Vísir/Vilhelm

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir Eyjamenn mjög ósátta við samgöngur sínar þessa dagana. Hún segir flug alltof stopult ásama tíma og Landeyjarhöfn er lokuð.

Þetta kemur fram í færslu bæjarstjórans á samfélagsmiðlinum Facebook. Íris segir bæjarbúa því búa við gríðarlega skertar samgöngur.

„Það er enginn sem hér býr, sama hvað stöðu hann gegnir, sáttur við þetta ástand. Við sem erum í pólitíkinni höfum beitt okkur og þrýst á ráðherra, Vegagerð og þingmenn okkar um að standa með okkur í þessari baráttu,“ skrifar Íris.

Hún segir að oft í viku séu samtöl, fundir og tölvupóstar til þess að vekja athygli á stöðunni og fara fram á breytingar. Deginum ljósara sé að Landeyjarhöfn sé ekki fullbúin. Það sýni sig vel þessa dagana.

„Úr því þarf að bæta eins og margoft hefur verið bent á, enda ekki seinna vænna 13 árum eftir að hún var tekin í notkun. Ábyrgðin og valdið til breytinga er hjá þingmönnunum okkar og ráðherrum. Við þurfum öll að þrýsta á þetta fólk saman!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×