Viðskipti innlent

Skiptum á Kaupþingi endanlega lokið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kaupþing var áður til húsa í Borgartúni.
Kaupþing var áður til húsa í Borgartúni. vísir

Skilanefnd einkahlutafélagsins Kaupþings hefur formlega lokið störfum með samþykkt 413 krafna. 

Kröfur í formi reiðufés voru samþykktar fyrir samanlagða fjárhæð þess sem nemur um 327 milljónum króna. Kröfur í formi breytanlegra skuldabréfa voru samþykktar fyrir fjárhæð sem nemur tæplega 200 milljónum króna og í formi hlutafjár að nafnvirði tæplega fimm milljarða.

Til viðbótar var ein krafa samþykkt að fjárhæð þess sem nemur 7,7 milljörðum króna.

Skilanefndina skipuðu þeir Alan J. Carr, Óttar Pálsson og Paul Copley, stjórnarmeðlimir Kaupþings.

Samþykkt var að slíta Kaupþingi ehf. í ágúst á síðasta ári. Félagið varð til á grunni slitabús hins fallna banka um að selja eignir og greiða kröfuhöfum söluandvirðið. Í framhaldinu var skorað á lánardrottna að lýsa kröfum fyrir frest þann 5. október 2022.

Samkvæmt ársreikningi var vogunarsjóðurinn Taconic Capital stærsti hluthafinn með 40% hlut en þar á eftir Deutsche Bank með 25% hlut.

Um er að ræða lokahnykkinn á ansi löngu ferli við að skipta eignum hins fallna banka. 

Árið 2015 samþykktu kröfuhafar nauðasamninga hlutafélagsins Kaupþings. Úr nauðasamningunum lifði einkahlutafélagið Kaupþing og lauk skiptum 2. júní síðastliðinn. Lauk skilanefndin störfum í kjölfarið og hefur félaginu nú verið slitið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×