Erlent

Fjöl­skyldan heima þegar ráðist var á heimili þeirra með hníf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekki er vitað hvað kokkurinn þóttist eiga sökótt við leikarann.
Ekki er vitað hvað kokkurinn þóttist eiga sökótt við leikarann. Getty/WireImage/Samir Hussein

Maður vopnaður hnífi réðist á heimili leikarahjónanna Benedict Cumberbatch og Sophie Hunter á dögunum. Cumberbatch og Hunter voru heima með börnum sínum þremur þegar atvikið átti sér stað.

Jack Bissell, sem starfaði áður sem kokkur á fimm stjörnu hóteli í Mayfair í Lundúnum, sparkaði upp hliðinu að garði fjölskyldunnar, reif upp plöntu og kastaði í vegg hússins. Þá hrækti hann á dyrasímann og réðist á hann með fiskihnífi.

„Ég veit að þú ert fluttur hingað; ég vona að þetta brenni,“ öskraði Bissell.

Að sögn saksóknarans í málinu keypti Bissell tvo pakka af pítubrauðum í nálægri verslun áður en hann lét til skarar skríða og sagði afgreiðslumanninum að hann ætlað að brjótast inn til Cumberbatch og brenna heimili hans til grunna.

Ekki liggur fyrir hvers vegna hann virðist hatast við leikarann.

Bissell flúði af vettvangi en var handtekinn eftir að erfðaefni hans fannst á dyrasímanum. Hann játaði glæpinn fyrir dómi 10. maí síðastliðinn og var dæmdur til að greiða 250 pund í sekt og sæta þriggja ára nálgunarbanni gagnvart fjölskyldunni.

Þá má hann ekki fara nálægt heimili þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×