Innlent

Slasaðist þegar hann féll niður bratta við Hvít­serk

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarfólk bar ferðamanninn á börum eftir fjörunni þar sem of erfitt var talið að koma honum aftur upp brekkuna þar sem hann féll. 
Björgunarfólk bar ferðamanninn á börum eftir fjörunni þar sem of erfitt var talið að koma honum aftur upp brekkuna þar sem hann féll.  Landsbjörg

Ferðamaður slasaðist nokkuð þegar hann féll niður bratta brekku niður í fjöru við Hvítserk í dag. Maðurinn var með meðvitund þegar björgunarfólk kom á staðinn. Til stóð að flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.

Slysið átti sér stað þegar ferðamaðurinn ætlaði að ganga frá útsýnispalli við Hvítserk, milli Hvammstanga og Blönduóss, niður bratta og torfæra brekku niður í fjöru, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg. Maðurinn hrasaði og féll nokkra leið niður í fjöruna og slasaðist.

Björgunarsveitir Landsbjargar í Húnavatnssýslum og Skagafirði voru kallaðar út. Töluverð vinna var að koma sjúkrabörum með sjúkling upp brekkuna og því var ákveðið að flytja manninn eftir fjörunni á meðan björgunarsveitarbíll þræddi leið áleiðis á slysstað.

Flutningurinn er sagður hafa gengið vel. Björgunarsveitarbíllinn flutti manninn svo að sjúkrabíl sem beið uppi á vegi. Aðgerðum á slysstað lauk um klukkan hálf átta í kvöld. Þá stóð til að flytja manninn til aðhlynningar í höfuðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×