Erlent

Yfir­bugaði konu sem hótaði lestar­far­þegum með hand­öxi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Örfáir mánuðir eru síðan tveir létust og fleiri slösuðust í hnífstunguárás í lest í Hamborg.
Örfáir mánuðir eru síðan tveir létust og fleiri slösuðust í hnífstunguárás í lest í Hamborg. Getty/Young

Tuttugu og fimm ára gömul kona var handtekin í lest í Þýskalandi í dag fyrir að hafa hótað farþegum með handöxi. Farþega tókst að yfirbuga konuna. Lestin var á leið til Stuttgart.

Deutsche Welle greinir frá því að lestin hafi verið á Wilferdingen-lestarstöðinni á milli Karlsruhe og Pforzheim í suðvestur Þýskalandi. Konan hafi skyndilega staðið fyrir útgangi lestarinnar og komið í veg fyrir að rafknúin lestarhurðin lokaðist. Þegar farþegar báðu hana um að færa sig dró hún upp átján sentimetra langa handöxi.

Farþega um borð, sem var Svisslendingur jafngamall konunni, tókst að yfirbuga hana og hélt henni fastri þar til lögregla mætti á vettvang. Hann hlaut minniháttar áverka en þurfti ekki á læknisaðstoð að halda. Ekki er vitað hvað konunni stóð til.

„Ótrúlegt hugrekki farþega kom í veg fyrir að verr færi. Konan er í haldi og mun fá þá aðstoð sem hún þarf,“ segir lögreglustjóri staðarlögreglunnar í Karlsruhe við DW.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×