Innlent

Glóð frá opnum eldi or­sök stór­bruna á Tálkna­firði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá vettvangi þegar bruninn átti sér stað.
Frá vettvangi þegar bruninn átti sér stað. Aðsend

Bruninn sem varð í nýbyggingu fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish í botni Tálknafjarðar varð líklegast vegna glóðar sem barst frá opnum eldi sem unnið var með í plastteninga sem ekki voru langt frá. Málið telst upplýst en enginn var með stöðu sakbornings við rannsókn málsins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Þar segir að slökkvistarf hafi staðið yfir í um það bil tíu klukkutíma. 

Mikið var fjallað um brunann hér á Vísi en áætlað var að byggingin hafi kostað um fjóra milljarða króna. Tveir voru fluttir á slysadeild með minniháttar meiðsli og þeir útskrifaðir skömmu síðar. 

Við rannsókn á upptökum brunans kom í ljós að iðnaðarmennirnir sem voru að störfum inni í byggingunni voru að vinna við að þétta steypta veggi. Til þess notuðu þeir meðal annars gas og opinn eld. Ljóst þykir að glóð hafi borist frá opna eldinum í plastteninga sem voru ekki langt frá. 

Teningarnir reyndust innihalda mjög eldfimt efni og varð skömmu síðar mikill eldur laus í byggingunni. Tilraunir starfsmanna til að slökkva eldinn báru ekki árangur. 

„Enginn var með réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins. Eins og segir hér að ofan telst málið upplýst og er unnið að frágangi þess hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Eigendum og tryggingafélagi hefur verið gert kunnugt um niðurstöðuna,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×