Innlent

Eldur í Víkur­skóla í Grafar­vogi og ekki hægt að úti­loka í­kveikju

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ekki er hætt að útiloka að um íkveikju hafi verið að ræða.
Ekki er hætt að útiloka að um íkveikju hafi verið að ræða. Vísir/Vilhelm

Eldur kom upp í Víkurskóla í Grafarvogi um klukkan hálf fjögur í nótt. Eldurinn virðist hafa komið upp í vinnurými í skólanum eða fundaraðstöðu að sögn Stefáns Kristinssonar varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sjálfvirkt slökkvikerfi skólans fór í gang við eldinn og því hlaust töluvert tjón af vatni úr því. Slökkviliði gekk vel að ráða niðurlögum eldsins en rjúfa þurfti klæðningu hússins til að ganga úr skugga um að þar leyndist ekki glæður. 

Stefán segir að ekki sé hægt að útiloka að um íkveikju hafi verið að ræða í þessu tilfelli en það verður í verkahring lögreglu að komast að upptökum eldsvoðans. 

Þá þurfti slökkvilið að sinna sinubrunum á þremur svæðum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Eldarnir voru allir minniháttar og brunnu við Síðumúla, í Mörkinni og við Sprengisand. 

Að sögn varðstjóra slökkviliðs virðist sem einhver eða einhverjir óprúttnir aðilar hafi verið þarna að verki og kveikt vísvitandi í. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort hún hafi haft hendur í hári brennuvarganna í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×