Veiði

Áhrif jakaflóða á laxveiðiár

Karl Lúðvíksson skrifar
Langá - Tannalækjarbreiða

Það var ótrúlegt að sjá myndir af þeim flóðum sem geysuðu á flestum vatnasvæðum í vikunni en þessi flóð getas haft áhrif á laxveiðiárnar.

Það er ólíklegt að þetta hafi mikil áhrif á seiðin í ánni enda er líklegast að þau syndi að botni í lygnara vatn og leiti skjóls á meðan mestu lætin ganga yfir. Áhrifin á árnar eru aftur á móti þau að klakaflóð af þeirri stærð sem við sáum getur breytt veiðistöðum. 

Þetta á við um þá veiðistaði sem renna um mela og tún en sandur og möl getur farið á mikla hreyfingu og breytt sumum veiðistöðum verulega. Þetta á eftir að koma betur í ljós þegar vorar en þessar breytingar sem eru óhjákvæmilegar í einhverjum mæli í ánum geta bæði haft góð áhrif og slæm.

Ég tek dæmi af þeirri á sem ég þekki best, Langá á Mýrum, sen hún er vel þekkt fyrir klakaflóð þegar hún ryður sig í vorflóðum. Það sem þessi flóð gera er að breyta sumum veiðistöðum varanlega. Það dæmi sem ég þekki best er líklega Tannalækjarbreiða en þar veiddi ég minn fyrsta flugulax 12 ára gamall og man vel eftir því hvernig sá veiðistaður leit út í ágúst árið 1984. Þá var löng og falleg malareyri við vesturbakkann og straumurinn úr Háhólskvörn myndaði mjög skýrt "V" rétt við endan á grasbalanum neðst við austurlandið. Eftir mikil flóð skolaðist þessi eyri í burtu og fyllti Stórhólakvörn sem var lengi eftir það hálf ónýtur veiðistaður. 

Jarðlangsstaðakvörn er annar staður sem var öðruvísi en hann er í dag og er það af völdum flóða. Straumurinn rann fjær klöppinni við austurlandið og myndaði mjög fallega breiðu sem var mjög gjöful. Endurtekin flóð færðu möl síðan alltaf nær efri hlutanum af veiðistaðnum og straumurinn rennur nú meira að klöppinni og myndar smá "s" áður en hann rennur í djúpa breiðu neðan við klöppina. Ingvi Hrafn Jónsson sem var leigutaki Langár í lengri tíma, lagaði mikið af þessum stöðum aftur í samstarfi við landeigendur og veiðifélagið en það hefur haldið flestum veiðistöðum í ánni nokkuð stöðugum milli ára. 

Eitt af því sem hefur minnkað áhrif þessara flóða er lúpína. Fyrir þessum 40 árum síðan sem ég byrjaði að veiða við Langá var mjög lítið um lúpínu og svæðið frá Hvítstaðahyljum og niður að Stórhólakvörn bara melur. Núna er þetta gróið svæði þar sem tré og annar gróður er að koma sér vel fyrir í þeim jarðvegi sem lúpínan hefur búið til á þessum áratugum. Lúpínan hopar þar sem hennar er ekki lengur þörf og afraksturinn eru minni breytingar á veiðistöðum en áður var.

Ég hlakka mikið til að mæta í ána mína aftur í sumar og sjá hvað flóðin gerðu við suma af mínum uppáhaldsstöðum. Ég vona í það minnsta að Tannalækjarbreiðan hafi sloppið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.