Erlent

Segir Tyrki mögu­lega munu hleypa Finnum inn án Svía

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Erdogan er enn að hóta því að halda Svíum fyrir utan Atlantshafsbandalagið.
Erdogan er enn að hóta því að halda Svíum fyrir utan Atlantshafsbandalagið. AP/Amin Durgut

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrki mögulega munu leggja blessun sína yfir aðildarumsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu án þess að samþykkja að hleypa Svíum inn á sama tíma.

Ummælin lét forsetinn falla á kosningafundi með ungu fólki en gengið verður til kosninga í landinu 14. maí næstkomandi og hefur forsetinn unnið að því að styrkja bakland sitt.

Tyrkland og Ungverjaland eru einu aðildarríki Nató sem enn eiga eftir að greiða atkvæði um umsóknir Finna og Svía en gert er ráð fyrir að ungverska þingið taki þær til umræðu í febrúar.

Erdogan sagði á fundinum í gær að Tyrkir gætu mögulega „sjokkerað“ Svía með því að segja já við Finnland en halda að sér höndum hvað varðar Svíþjóð. Þá ítrekaði hann kröfu sína um að Svíar framseldu hóp Kúrda.

„Ef þið eruð staðráðin í því að ganga í Nató þá skilið þið okkur þessum hryðjuverkamönnum,“ sagði hann.

Bæði Finnland og Svíþjóð hafa tekið skref til að koma til móts við Tyrki, til að mynda aflétt vopnasölubanni sem komið var á eftir að Tyrkir réðust inn í Sýrland árið 2019. 

Stjórnvöld í Tyrklandi eru hins vegar gríðarlega óánægð með þá ákvörðun lögreglu í Svíþjóð að heimila mótmæli þar sem eintak af Kóraninum var brennt. 

Þá vakti það hörð viðbrögð að saksóknarar skyldu ákveða að ákæra ekki stuðningsmenn Kúrda sem hengdu líkneski af Erdogan upp á ökklunum við dómshúsið í Stokkhólmi.

Finnar hafa gefið til kynna að þeir kunni að ganga inn í Nató á undan Svíum vegna þeirrar stöðu sem upp er komi í samskiptum Tyrkja og Svía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×