Erlent

Maðurinn á bak við Rick and Mor­ty á­kærður fyrir heimilis­of­beldi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hinn 42 ára gamli Justin Roiland talar einnig fyrir samnefndar aðalpersónur þáttanna: Rick og Morty.
Hinn 42 ára gamli Justin Roiland talar einnig fyrir samnefndar aðalpersónur þáttanna: Rick og Morty. Getty/TheoWargo

Justin Roiland, höfundur sjónvarpsþáttanna Rick and Morty, hefur verið ákærður fyrir heimilisofbeldi. Dómstóll í Kaliforníu í Bandaríkjunum tók málið fyrir í gær.

Ónafngreind kona, sem sögð er hafa átt í sambandi við Roiland, kærði hann upphaflega árið 2020. Samkvæmt umfjöllun NBC er hann sakaður um að hafa beitt konuna ofbeldi í upphafi þess árs. 

Svo fór að Roiland var handtekinn í ágúst árið 2020 en síðar sleppt gegn tryggingu. Konan fékk hins vegar nálgunarbann á hendur honum sem enn er í gildi. Roiland hefur allar götur síðan neitað ásökununum.

Málið hefur velkst innan dómskerfisins í tvö ár og nokkur réttarhöld hafa farið fram. Meðal málsgagna eru myndbandsupptökur frá lögreglumönnum, skýrslur lækna, lögreglumanna og vitna. 

Lögregla hefur nú hins vegar formlega ákært Roiland og gert er ráð fyrir því að næsti liður málsmeðferðarinnar fari fram í apríl.

Eins og fyrr segir er Roiland höfundur sjónvarpsþáttanna Rick and Morty, sem notið hafa gríðarmikilla vinsælda. Hann talar einnig fyrir samnefndar aðalpersónur Rick Sanchez og Morty Smith. Framleiðslufyrirtækið Adult Swim, dótturfyrirtæki Warner Bros, hefur ekki viljað tjáð sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×