Erlent

Weinstein dæmdur fyrir aðra nauðgun

Atli Ísleifsson skrifar
Harvey Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun í New York árið 2020.
Harvey Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun í New York árið 2020. EPA

Kviðdómur í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur fundið kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein sekan af ákæru um að hafa nauðgað konu.

Réttarhöld í málinu hafa staðið í tvo mánuði og sögðu saksóknarar að Weinstein hefði beitt áhrifum sínum til að koma á einkafundum með konum áður en hann réðst á þær.

Hinn sjötugi Weinstein á yfir höfði sér allt að 24 ára fangelsi en dómari á enn eftir að tilkynna um refsingu yfir Weinstein.

Weinstein afplánar nú þegar 23 ára fangelsisdóm eftir að hafa verið dæmdur fyrir nauðgun og kynferðisbrot í New York fyrir um tveimur árum.

Weinstein var ákærður fyrir að hafa brotið á fjórum konum – þriggja sem nutu nafnleyndar og svo Jennifer Siebel Newsom, eiginkonu ríkisstjóra Kaliforníu, Gavin Newsom. Réttarhöldin voru dæmd ómerk í máli þriggja kvennanna, þar með talið í máli Siebel Newsom sem sakaði hann um að hafa brotið á sér á hótelherbergi 2005, þar sem kviðdómi tókst ekki að ná saman um niðurstöðu.

Weinstein er einn þekktasti kvikmyndaframleiðandi heims, en hann stofnaði meðal annars framleiðslufyrirtækið Miramax og stóð að framleiðslu á myndum á borð við Shakespeare in Love og Pulp Fiction.


Tengdar fréttir

Réttað yfir Weinstein vegna Óskarsmála

Byrjað verður að velja kviðdómendur fyrir réttarhöld yfir Harvey Weinstein, kvikmyndaframleiðandanum alræmda, í Los Angeles í Bandaríkjunum í dag. Weinstein er ákærður fyrir að brjóta á fimm konum, meðal annars í kringum Óskarsverðlaunahátíð fyrir níu árum.

Gæti átt 140 ár í fangelsi í vændum

Kvikmyndaframleiðandinn og Hollywood mógúllinn Harvey Weinstein er enn og aftur mættur fyrir dómara í Bandaríkjunum sakaður um kynferðisofbeldi. Weinstein gæti átt yfir höfði sér allt að 140 ára dóm en hann afplánar nú 23 ára fangelsisdóm fyrir kynferðisofbeldi og nauðgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×