Innlent

Vinnu­menn senda konur í karla­klefa Vestur­bæjar­laugar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mikil aðsókn var í Vesturbæjarlaug í morgun.
Mikil aðsókn var í Vesturbæjarlaug í morgun. Vísir/Vilhelm

Á morgun munu kvenkyns sundlaugargestir nota karlaklefann í Vesturbæjarlaug í Reykjavík en karlar nota kvennaklefann. Viðgerðir á loftræstikerfi kvennaklefans fara fram á morgun. 

Í færslu á Facebook-síðu Vesturbæjarlaugar er beðist velvirðingar á þessu raski. Spurt er hvort það hafi ekki allir velt því fyrir sér hvernig sé til umhorfs í hinum klefanum. 

Í samtali við fréttastofu segir starfsmaður laugarinnar að þeir vinnumenn sem koma að framkvæmdunum á loftræstikerfinu séu allir karlmenn. Því þótti það auðveldast að færa konurnar yfir í karlaklefann til að ekki þyrfti að loka klefanum alfarið. 

Fleiri sundlaugar hafa gert slíkt hið sama til að halda klefunum báðum opnum, til dæmis Árbæjarlaug. Það þykir afar vinsælt meðal karlmanna þegar skipt er þar sem í kvennaklefanum er infrarauð sána en enga slíka er að finna í karlaklefanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×