Jól

„Ég vil alltaf meira skraut, fleiri ljós, fleiri gjafir, meira stuð“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Gunnar Helgason er viðmælandi í Jólamola dagsins.
Gunnar Helgason er viðmælandi í Jólamola dagsins.

Rithöfundurinn og leikarinn Gunnar Helgason hefur kætt íslensk börn í rúmlega tuttugu og fimm ár. Hann er hvergi nær hættur, því þessa dagana eru hann og Felix með jólasýningu í Gaflaraleikhúsinu. Auk þess hefur Gunnar gefið út hverja metnaðarfullu barnabókina á fætur annarri og nefnist nýjasta bók hans Bannað að ljúga. Gunni er viðmælandi í Jólamola dagsins.

Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.

Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?

„Alveg örugglega Elf. Ég vil alltaf meira skraut, fleiri ljós, fleiri gjafir. Meira stuð, meiri kósíheit, meira spilerí. Meiri mat (sem er reyndar smá vesen), fleiri veislur.“

Hver er þín uppáhalds jólaminning?

„Besta barnaminningin er þegar ég fékk skíði og skíðaskó OG geggjaðan kastala og riddara og allt. En kannski voru þetta sín hvor jólin. En eftir að ég eignaðist börn hafa öll jól verið töfrum líkust. Tvenn jól standa þó upp úr en það var þegar strákarnir mínir tveir fengu að lesa á gjafirnar í fyrsta sinn. Þeim fannst það skemmtilegra en að fá gjafir sjálfir.“

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Skíðin og kastalinn og það allt.“

Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Ég hef aldrei fengið vonda jólagjöf. Bara aldrei. Ég hef greinilega verið mjög heppinn.“

Hver er uppáhalds jólahefðin þín?

„Skatan á Þorláksmessu. Þá kemur eldri kynslóðin í mat til okkar Bjarkar og allt húsið fyllist af yndislegum, kæstum jólailmi. Þetta er reyndar svo vinsælt boð að yngri kynslóðir hafa verið duglegar við að svindla sér inn.“

Hvert er þitt uppáhalds jólalag?

„Náttfatapartý. Tékkið á því.“

Hver er þín uppáhalds jólamynd?

„Love Actually.“

Hvað borðar þú á aðfangadag?

„Bara eitthvað. Rjúpur eru í uppáhaldi hjá mér en ekki öllum. Og svo er pescetarianismi að breiða úr sér í Hafnarfirði, líka heima hjá mér, þannig að það er alltaf allskonar í matinn. Held að við höfum haft kalkún og hnetusteik síðast og humarsúpu og eplapæ. Og konfekt. Og allskonar.“

Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?

„Veiðileyfi. Eða nei. Mig langar sjúklega í veiðikassann frá Reiðu öndinni. Það er svona kassi með prímus og kaffi og espressókönnu og bollum og allskonar. Og það er pláss fyrir kanilsnúða líka.“

Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?

„Skatan. Og svo þegar sú veisla er búin förum við að elda humarsúpuna. Það er sólarhringsvinna. Og ilmurinn breytist og og maður slakar á.“

Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?

„Uuu ... já það er allt kreisí. Ég er á fullu úti um allt að lesa upp í skólum úr nýju bókinni minni, Bannað að ljúga. Og svo er ég að leika jólaleikrit í Gaflaraleikhúsinu alla sunnudaga og svo nær þessi brjálaða törn hámarki með Jólagestum Björgvins í Laugardalshöllinni.“


Tengdar fréttir

Besta jóla­gjöfin var bón­orð á að­fanga­dag

Jólin eru sannarlega tími tónlistarkonunnar Guðrúnar Árnýjar. Hún kynntist manninum sínum í desember mánuði fyrir 22 árum síðan og trúlofaðist honum á aðfangadag. Þá eru jólin alltaf annasamur en skemmtilegur tími hjá henni í tónlistinni. Guðrún Árný er viðmælandi í Jólamola dagsins.

Sá sem gaf Gumma Kíró göngu­skó í jóla­gjöf hefði átt að vita betur

Kírópraktorinn og fagurkerinn Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur sem Gummi Kíró, segist vera erfiður þegar kemur að jólagjöfum. Hann viti aldrei hvað hann langi í en jólagjafirnar sem börnin búi til í skólanum hitti þó alltaf beint í hjartastað. Gummi Kíró er viðmælandi í Jólamola dagsins.

Jólin voru erfiður tími þar til hún losnaði undan pressunni og fann jóla­gleðina á ný

Leikkonan Aldís Amah Hamilton hefur verið áberandi hér á landi síðustu ár, nú síðast fyrir hlutverk sitt í Svörtu söndum. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á handrit fyrir nýja þáttaröð af Svörtu söndum en Aldís er einn af hugmyndasmiðum þáttanna. Eftir það ætlar hún að taka sér gott jólafrí í fyrsta sinn í langan tíma, borða ljúffengan vegan mat, spila tölvuleiki og hlaða batteríin. Aldís Amah er viðmælandi í Jólamola dagsins.








×