Jól

Dóna­legur pakki gerði Ást­rós vand­ræða­lega á að­fanga­dags­kvöld

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Dansarinn Ástrós Traustadóttir sló í gegn í þáttunum Allir geta dansað og LXS raunveruleikaþáttunum.
Dansarinn Ástrós Traustadóttir sló í gegn í þáttunum Allir geta dansað og LXS raunveruleikaþáttunum. Vísir/Vilhelm

Hin stórglæsilega og hæfileikaríka Ástrós Traustadóttir fangaði athygli þjóðarinnar þegar hún tók þátt í þáttunum Allir geta dansað fyrir fjórum árum síðan. Þá hafði hún verið áberandi á samfélagsmiðlum í þónokkur ár. Í dag er hún hluti af LXS áhrifavaldahópnum sem þjóðin fékk að kynnast í samnefndum raunveruleikaþáttum á Stöð 2 í haust. Ástrós er viðmælandi í Jólamola dagsins.

Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.

Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?

„Ég er klárlega Elf. Ég er algjört jólabarn, elska jólin og þennan árstíma. Það verður allt svo kósý og þar sem ég get verið algjör introvert stundum þá finnst mér geggjað að vera heima og baka og horfa á jólamynd eða gera eitthvað huggulegt með fjölskyldunni. Það leiðir reyndar oftast til að vera á seinasta snúning með flest allt á ToDo-listanum en það er eiginlega bara mjög stór partur af jólunum hjá mér, pínu stress með öllum kósýheitunum.“

Hver er þín uppáhalds jólaminning?

„Vá þær eru svo ótrúlega margar. En síðustu tvær sem standa upp úr eru þegar við tókum upp jólaþáttinn fyrir Allir geta dansað. Allt settið var svo jólalegt og við dönsuðum við All I Want For Christmas Is You, gerist ekki jólalegra en það.

Síðan þegar ég pakkaði jólagjöfunum sjálf inn í fyrsta skipti ever með bestu vinkonu minni. Það var svo kósý; piparkökur, kakó og jólatónlist. Ég er núll svona dúllerískona þegar kemur að því að pakka inn. Ég hef bókstaflega alltaf keypt svona gjafapoka og kallað það gott. Svo þetta fannst mér mjög mikið afrek að kaupa pappír og borða og hafa fyrir þessu sjáið til.“

Ein eftirminnilegasta jólaminning Ástrósar er þegar hún dansaði í jólaþætti Allir geta dansað með Veigari Páli.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Ég hef fengið margar góðar svo það er erfitt að velja. Ég man reyndar vel ein jólin þegar ég var mjög greinilega í miklu self-care skapi að þá bað ég nánast alla um góð ilmkerti. Ég held ég hafi fengið svona 8-10 kerti þau jólin og ég var svo sátt.“

Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Ég veit eiginlega ekki hvort það eigi heima hérna en ég fékk í gríngjöf The Little Big Penis Book, sem lýsir sér svolítið sjálft. Þetta er svona myndabók sem var keypt í Pennanum eða eitthvað álíka. Ég opnaði þetta með allri fjölskyldunni og litlu systkinum, mér fannst þetta mjög pínlegt en vissulega er þetta fyndið í dag.“

Ástrós segist vera lítið fyrir dúllerí. Hún hafi alltaf keypt tilbúna gjafapoka í stað þess að pakka jólapökkunum inn. Hún var því afar stolt þegar hún pakkaði inn í fyrsta skipti.

Hver er uppáhalds jólahefðin þín?

„Að fara í kirkju finnst mér yndislegt.“

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?

„Það er svolítið erfitt að velja eitt lag. En ég er 90’s barn þannig ég átti alltaf geisladiska og meðal annars jóladiskinn með Jóhönnu Guðrúnu og Stebba Hilmars og ég held ég kunni báðar þær plötur utan af.“

Hver er þín uppáhalds jólamynd?

„Love Actually og This Christmas. Síðan er smá hefð hjá mér að taka alltaf Harry Potter maraþon yfir jólatímann.“

Hvað borðar þú á aðfangadag?

„Humar í forrétt og síðan er það vanalega hreindýr eða dádýr í aðalrétt. Það er ekki í boði í ár, þar sem ég er ólétt þetta aðfangadagskvöld, en við finnum eitthvað sem gengur upp. Svo er ég ekki mikil desert manneskja en mér fannst alltaf geggjað gott þegar ég var yngri og mamma gerði ris a la mande.“

Sjá: Ástrós og Adam eiga von á barni

Venjulega borðar Ástrós humar og hreindýr eða dádýr. Hún er nú ólétt og mun því borða eitthvað annað þetta árið.

Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?

„Ég og kærastinn minn erum nýbúin að kaupa okkur íbúð þannig ætli það sé ekki bara eitthvað fallegt inn á heimilið.“

Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?

„Ég myndi segja bara allt hérna fyrir ofan. Plús þegar ég officially set á Léttbylgjuna og skipti ekki um stöð fyrr en eftir jól.“

Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?

„Við vorum að koma frá Köben. Við fórum í smá kósý ferð bæði til að versla jólagjafir og hitta vini. Nú taka bara við framkvæmdir á heimilinu og gera barnaherbergið tilbúið og undirbúa allt fyrir litlu.

Síðan erum við vinkonurnar byrjaðar á upptökum á seríu tvö af LXS. Svo er hægt að fylgjast með þessu öllu á Instagram reikning mínum astrostraustaa.“


Tengdar fréttir

Ástrós og Adam eiga von á barni

LXS raunveruleikastjarnan og dansarinn Ástrós Traustadóttir og frumkvöðullinn Adam Karl Helgason eiga von á barni í febrúar á næsta ári. Það er mikill spenningur hjá parinu fyrir erfingjanum en þetta er þeirra fyrsta barn saman.

Myndaveisla: LXS partý

Forsýningarpartý raunveruleikaþáttanna LXS fór fram á Bankastræti Club þar sem glamúrinn var allsráðandi. Í veislunni voru tveir fyrstu þættirnir sýndir og skálað var fyrir verkefninu. Margt var um manninn og voru gestir klæddir sínu fínasta pússi en stjörnur kvöldsins voru án efa LXS píurnar.








×