Erlent

22 handteknir í tengslum við árásina í Istanbul

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sprengjan sprakk á háannatíma.
Sprengjan sprakk á háannatíma. AP/Emrah Gurel

Lögregluyfirvöld í Istanbul hafa handtekið 22 í tengslum við sprengjuárás í borginni í gær, þar sem sex létu lífið og 81 særðist. Innanríkisráðherra Tyrklands segir vígamenn úr röðum Kúrda í norðurhluta Sýrlands ábyrga.

Árásin átti sér stað á Istiklal-göngugötunni á háannatíma.

Að sögn dómsmálaráðherrans Bekir Bozdag sat kona þar á bekk í um 45 mínútur en sprengjan sprakk aðeins augnabliki eftir að hún stóð upp og gekk í burtu. Innanríkisráðherrann Suleyman Soylu sagði að árásin hefði verið skipulögð í Ayn al-Arab í Sýrlandi, af aðskilnaðarsinnum úr röðum Kúrda.

Nefndi hann Verkamannaflokk Kúrdistan (PKK) og Varnarsveitir Kúrda (YPG) í þessu samhengi.

Enn sem komið er hefur enginn lýst árásinni á hendur sér.

Fólk flúði af vettvangi.AP/Can Ozer

Fahrettin Altun, upplýsingafulltrúi forsetaembættisins, gaf það í skyn að árásin kynni að hafa áhrif á samskipti Tyrklands og Bandaríkjanna en Tyrkir hafa löngum verið afar óánægðir með stuðning Bandaríkjamanna við uppreisnarhópa Kúrda í Sýrlandi.

Hann sagði alþjóðasamfélagið þurfa að leggja við hlustir; hryðjuverkaárásir á almenna borgara í Tyrklandi væru óbein afleiðing stuðnings sumra ríkja við hryðjuverkahópa. Honum þyrfti að linna ef menn vildu tryggja sér vináttu Tyrkja.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir árásarmönnunum verða refsað.

Hér má sjá myndefni frá Reuters, þar sem meðal annars má sjá þegar sprengjan sprakk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×