Erlent

Gríðar­leg aukning í ræktun kókaín­runna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Það hefur ekki gengið hjá nýjum forseta Kólumbíu að beina bændum frá ræktun kókaínrunna.
Það hefur ekki gengið hjá nýjum forseta Kólumbíu að beina bændum frá ræktun kókaínrunna. Getty

Ræktun á kókaínrunnum í Kólumbíu hefur aukist um 43 prósent samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Forseti landsins segir stríðið gegn eiturlyfjum vera tapað. 

Rúmlega tvö þúsund ferkílómetrar af svæði eru notaðir í ræktun kókaínrunna í Kólumbíu í dag. Svæðið jafnast á við rúmlega tvo Langjökla sem er næststærsti jökull Íslands. Lauf kókaínrunna eru, eins og nafnið gefur til kynna, notuð til að framleiða kókaín. 

Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, var kjörinn í sumar. Hann er fyrsti vinstrisinnaði forseti landsins og ætlaði hann sér að taka á kókaínvanda landsins. Hann er þó búinn að lýsa yfir tapi í þeirri baráttu einungis fjórum mánuðum eftir að hann tók við. 

Forsetinn hafði ætlað sér að hjálpa bændum við að fjarlægjast ræktun kókaínrunna með ýmsum aðferðum en hefur ekki tekist það. Þess í stað hefur ræktunin aukist.

BBC segir meirihluta kókaíns sem framleitt er í Kólumbíu vera flutt til Evrópu og Bandaríkjanna. Engin þjóð notar meira kókaín en Bandaríkjamenn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×