Viðskipti innlent

Munu fljúga til Aþenu næsta sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrsta ferðin til Aþenu verður flogin í byrjun júní á næsta ári.
Fyrsta ferðin til Aþenu verður flogin í byrjun júní á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til grísku höfuðborgarinnar Aþenu. Áætlað er að fyrsta ferðin verði farin 2. júní 2023 en flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum, út október 2023.

Í tilkynningu kemur fram að þetta verði í fyrsta sinn sem flugfélag sé með beint áætlunarflug á milli Íslands og Aþenu.

Flogið verður til alþjóðaflugvallarins í Aþenu (Athens International Airport) og segir í tilkynningunni frá Play að um sé að ræða nýjustu viðbótina við stækkandi leiðakerfi flugfélagsins. Fyrir skemmstu hafi hafist miðasala á ferðum til Porto í Portúgal.

Flugfélagið býður nú áætlunarferðir til 27 áfangastaða beggja vegna Atlantshafsins.

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að hann sé virkilega spenntur fyrir þessum nýja áfangastað og kveðst hann trúa því að margir séu sammála sér. „Nú geta Íslendingar farið í beint flug til Aþenu í fyrsta sinn og þá Aþenubúar sömuleiðis til Íslands. Þá er ég viss um að það séu stór tækifæri í tengifluginu og að Bandaríkjamenn muni nýta sér þessa nýju leið Play yfir Atlantshafið til Aþenu og öfugt,” er haft eftir Birgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×